Innlent

„Þetta er hættu­legt ef við viljum á­fram búa í frjáls­lyndu lýð­ræðis­sam­fé­lagi“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Maximilian Conrad, prófessor við stjórnmálafræðideild HÍ, telur þróunina vera áhyggjuefni.
Maximilian Conrad, prófessor við stjórnmálafræðideild HÍ, telur þróunina vera áhyggjuefni. HÍ/Kristinn Ingvarsson/samsett mynd

Markvisst er sótt að grunngildum frjálslyndra lýðræðisríkja í Evrópu og tilefni er til að hafa áhyggjur af þróuninni. Þetta segir prófessor við Háskóla Íslands sem leiddi umfangsmikið evrópskt rannsóknarverkefni þar sem áhrif nýs veruleika í upplýsingaumhverfinu á lýðræðissamfélagið voru rannsökuð. Bergmálshellar samfélagsmiðla, dvínandi traust á fjölmiðlum og uppgangur popúlískra alræðistilburða séu meðal þess sem grafi undan frjálslyndu lýðræði og það sé tilefni til að berjast til baka til að endurheimta það.

Í september síðastliðnum lauk þriggja ára rannsóknarverkefninu Reclaim sem hlaut styrk frá Evrópusambandinu fyrir nokkrum árum. Styrkurinn, sem hljóðaði upp á þrjú þúsund Evrur eða um 420 milljónir, var á sínum tíma einhver sá hæsti sem veittur hefur verið til rannsókna á sviði félagsvísinda hjá Háskóla Íslands. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands annaðist umgjörð verkefnisins sem leitt var af Maximilian Conrad, prófessor við stjórnmálafræðideild HÍ.

Maximilian Conrad hefur leitt Reclaim verkefnið undanfarin þrjú ár.TEPSA/Eliza Löw

„Aðeins hluti þess fjár kom til okkar en það eru þrettán samstarfsaðilar í tólf löndum sem taka þátt,“ segir Maximilian í samtali við Vísi. Hann segir viðfangsefnið víðtækara en að varða einungis áhrifin af upplýsingaóreiðu. Það varði gjörbreytt upplýsingaumhverfi í víðara samhengi, samspil ólíkra þátta og þau áhrif sem þeir hafa á frjálslynd lýðræðisríki.

„Ég held að það sé mikilvægt að við áttum okkur á því að þetta er að gerast og við þurfum að skilja að þetta er hættulegt ef við viljum halda áfram að búa í frjálslyndu lýðræðissamfélagi. Af því að það er undirliggjandi ásetningur, vil ég meina, um að grafa undan gildum lýðræðis og frelsis. Þá á ég við hluti eins og frelsi, jafnrétti, virðingu gagnvart fjölbreytileika og svo framvegis. Þetta er í grunninn það sem atlaga eftirsannleiks-popúlista beinist gegn í lýðræðissamfélögum,“ segir Maximilian.

„Þetta snýst ekki aðeins um upplýsingaóreiðu sem drifin er áfram af popúlistum á borð við Donald Trump og snýst ekki heldur bara um upplýsingaóreiðu frá óvinveittum erlendum ríkjum. Við heyrum mikið um upplýsingaóreiðu frá Rússum og Kínverjum. En fyrir okkur snýst þetta frekar um hvað umskiptin í upplýsingamenningunni þýða fyrir frjálslynd lýðræðissamfélög. Það er að segja, hvað er að gerast í stjórnmálamenningunni okkar,“ útskýrir Maximilian.

Minni neysla, dvínandi traust og pólitískar árásir á fjölmiðla

Þar á meðal sé hnignandi staða fjölmiða og blaðamennsku í lýðræðissamfélögum og minnkandi traust til fjölmiðla. „Það eru einkum pólitískar árásir á blaðamenn. Ekki endilega bara á einstaka blaðamenn, heldur á fyrirbærið blaðamennsku sem slíka,“ segir Maximilian.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping leiðtogi Kína.AP/Mark Schiefelbein

Hann nefnir sem dæmi orðræðu Trump Bandaríkjaforseta sem hafi ítrekað sakað fjölmiðla um að flytja falsfréttir og hvernig svipuð tilhneiging sé að eiga sér stað meðal stjórnmálamanna víðar í heiminum.

Greining sannreyndra upplýsinga og staðreyndir hafi líka verið gengisfelldar í auknum mæli í samfélagsumræðunni. „Það er fólk sem skilgreinir og talar fyrir eigin hliðarsannleika þegar því líkar ekki hinn eiginlegi sannleikur. Fólk sem leggur eitthvað til málanna sem er ekki stutt af neinum sönnunargögnum eða horft er vísvitandi fram hjá þeim. Hlutverk samfélagsmiðla spilar þar stóra rullu.“

Samspil ólíkra þrátta sem gerast á sama tíma

Þar sem verkefnið var umfangsmikið og skoðaðir voru hinir ýmsu ólíku angar viðfangsefnisins er erfitt að draga saman allar niðurstöður í stuttu máli. Því var skipt niður í nokkur þemu og í gegnum þau má merkja ákveðinn rauðan þráð að sögn Maximilians.

„Til dæmis vaxandi vantraust gegn fjölmiðlum, vantrú á staðreyndum, uppgangur popúlisma og þetta allt saman og við reyndum að greina hvert efni á sinn hátt. Ég held að lykilniðurstaðan sé nokkurn veginn sú að við erum að eiga við einhvers konar samspil þessara fyrirbæra.“

Gervigreind, samfélagsmiðlar, upplýsingaóreiða... Það er allt mögulegt undir að mati prófessorsins.Getty

„Niðurstaðan er ekki bara sú að fólk verji of miklum tíma á samfélagsmiðlum, ekki bara að það sé of mikið af fölskum upplýsingum í umferð, ekki aðeins að það sé meira um efni skapað af gervigreind sem fólk trúir og ekki heldur bara að það séu fleiri popúlískir stjórnmálamenn sem halda fram skálduðum staðreyndum. Mér finnst niðurstaðan ekki heldur aðeins vera sú að fólk lesi ekki fréttir í sama mæli lengur, eða að fólk treysti ekki blaðamönnum á sama hátt og það gerði áður. Ekki heldur að það sé fólk sem treystir áhrifavöldum betur en sérfræðingum með vísindalega þekkingu,“ nefnir hann sem dæmi. Stóra áhyggjuefnið sé að þetta sé allt að gerast á sama tíma.

„Ef við tökum saman allar helstu niðurstöður rannsóknanna í verkefninu, þá sjáum við að það er í raun samspilið á milli allra þessara þátta sem hefur þau áhrif að við búum við gjörbreytt upplýsingaumhverfi þar sem það er uppi gjörólíkur skilningur á því hvað er raunverulegt og hvernig við notumst við staðreyndir í opinberri umræðu,“ segir Maximilian.

Sumir áhyggjufullir en aðrir yppti öxlum

En hvað er þá til ráða, hver er útkoman og hverju þarf að bregðast við? Um það eru ekki allir sammála sem tóku þátt í verkefninu að sögn Max sem sjálfur deilir sinni persónulegu skoðun.

„Ég held að við þurfum virkilega að viðurkenna að þetta sé að gerast í raun og veru, að við séum ekki að ýkja niðurstöðurnar.“ Í þessum efnum megi segja að tveir skólar hafi tekist á. Annars vegar þeir sem sjá stöðuna í alvarlegu ljósi og telja þróunina eiga að hringja viðvörunarbjöllum, og hins vegar þeir sem hafa minni áhyggjur og segja að svona hafi þetta alltaf að einhverju leyti verið.

Max er ófeiminn við að gangast við því að tilheyra fyrrnefnda hópnum. „Ég er í hópi þeirra sem finnst þetta eiga að hringja viðvörunarbjöllum og ég ber þann titil eiginlega með stolti. Það eru ekki allir sem fallast á þetta. En mér finnst mikilvægt að við viðurkennum og skiljum að þetta er raunverulega að gerast og þetta er hættulegt lýðræðissamfélaginu,“ segir Maximilian.

Það sé ekki heldur í boði að vera bara „neytandi“ þeirra gæða sem frjálslynt lýðræðissamfélag hefur upp á að bjóða heldur hafi allir hlutverki að gegna og þurfi að leggja sitt af mörkum á móti til að slíkt samfélag geti þrifist áfram. „Við verðum að berjast á móti þeim sem reyna að grafa undan þessum gildum.“

Upplýsingarnar eru valdar fyrir þig

Sjálfur telur hann mikilvægt að undirbyggja og styrkja miðlægan opinberan vettvang þar sem samfélagsumræða og rökræður fara fram. Slík umræða hafi í auknum mæli færst yfir í bergmálshella á samfélagsmiðlum á sama tíma og fólk fylgist með fréttum í minnkandi mæli. „Við þurfum að endurheimta getu okkar til að ræða ólík sjónarmið okkar á milli án þess að kalla þá sem við erum ósammála strax rasista, kvenhatara, gyðingahatara, íhaldsmenn, frjálslynda eða hvaða orð sem eru notuð. Við þurfum að brjótast út úr þessari skautun í umræðunni,“ segir Maximilian.

Með nefið ofan í síma. Maximilian bendir á að þær upplýsingar sem við fáum í gegnum netið eða á samfélagsmiðlum birtist okkur ekki hlutlaust. Það sem við sjáum sé valið fyrir okkur með hjálp algóritma.Vísir/Vilhelm

„Þetta snýst einnig um að endurheimta traust til fjölmiðla. Í því felst að byggja upp skilning á því hvað það er sem blaðamennska raunverulega snýst um, af hverju hún er lýðræðinu mikilvæg og ekki síst hvernig hún virkar. Hvers vegna upplýsingar sem við fáum frá faglegum blaðamönnum eru frábrugðnar upplýsingum sem þú færð á TikTok eða Instagram, jafnvel þótt maður hafi trú á að þær upplýsingar séu sannar.“

Fjölmiðlalæsi sé mikilvægt í því samhengi, ekki síður stafrænt fjölmiðlalæsi. Síðast en ekki síst þarf að auka þekkingu og skilning á því hvernig algóritmar samfélagsmiðla virka. „Upplýsingar koma ekki bara til þín, þær eru valdar fyrir þig byggt á öllum mögulegum þáttum og þeirri hlutdrægni sem gæti átt við um þig,“ segir Maximilian.

Ólíkur upplýsingaheimur kynjanna

Líkt og áður segir bar rannsóknarverkefnið sem hann leiddi nafnið Reclaim, endurheimt. En hvað er það eiginlega sem þarf að endurheimta?

„Við þurfum að endurheimta hið frjálslynda lýðræði,“ svarar Maximilian. Í því felist meðal annars þeir þættir sem reifaðir voru að framan. Þótt traust í garð stjórnmálanna og fjölmiðla hafi jafnan mælst hærra á Norðurlöndum en víða annars staðar sé Ísland sé ekki undanskilið áhrifum af því gjörbreytta upplýsingaumhverfi sem blasi við vestrænum lýðræðisríkjum.

„Ísland er ekki undanskilið í þessu,“ segir Maximilian, þótt Ísland sé ekki hið týpíska dæmi um land þar sem „eftir-sannleikur“ hafi náð yfirhöndinni. Ákveðinna ummerkja gæti þó einnig hér á landi. Hefðbundin fjölmiðlaneysla meðal ungs fólks hafi til að mynda dregist verulega saman og yngri kynslóðir fái sínar upplýsingar í auknum mæli frá áhrifavöldum.

Þær upplýsingar sem beint er að ungum stúlkum geta verið gjörólíkar þeim sem beint er að strákum.Vísir/Vilhelm

„Við höfum tekið viðtöl við kennara hér á Íslandi sem segja okkur að strákar og stelpur búa við gjörólíkt upplýsingaumhverfi,“ nefnir Max sem dæmi. „Þetta segir okkur að áhrifavaldar spila stóra rullu, aldeilis ekki alltaf til hins betra, og það sýnir einnig fram á hvernig þær upplýsingar háðar kyni hvaða upplýsingum er beint að ungu fólki. Þær upplýsingar sem stelpur fá annars vegar og strákar hins vegar eru gjörólíkar.“

Rannsóknir undanfarinna tuttugu ára sýni að þótt vonir hafi verið bundnar við að internetið myndi gegna jákvæðu hlutverki í lýðræðissamfélaginu, og vissulega séu dæmi um það, þá sé netið markvisst notað til að grafa undan lýðræðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×