Sport

Sögu­legt bardagakvöld á Ásbrú: „MMA er ekki ó­lög­legt“

Aron Guðmundsson skrifar
Bjarki Þór Pálsson MMA þjálfari og skipuleggjandi Glacier Fight Night og Hákon Arnórsson bardagamaður úr RVK MMA sem mætir Eric Nordin í aðalbardaga kvöldsins
Bjarki Þór Pálsson MMA þjálfari og skipuleggjandi Glacier Fight Night og Hákon Arnórsson bardagamaður úr RVK MMA sem mætir Eric Nordin í aðalbardaga kvöldsins Vísir/Ívar Fannar

Blað verður brotið í sögu blandaðra bar­daga­lista hér á landi á laugar­daginn með Gla­cier Fig­ht Night bar­daga­kvöldinu. Skipu­leggj­endur vonast til þess að viðburðurinn verði sá fyrsti af mörgum hér á landi og öllu verður til tjaldað.

Það er ljóst að stemningin í Andrews Thea­ter á Ás­brú verður raf­mögnuð á laugar­dagskvöldið kemur. Upp­selt er á þetta fyrsta bar­daga­kvöld sem haldið verður á Ís­landi í MMA. Sögu­legt í meira lagi og tíu ís­lenskir bar­daga­kappar munu stíga inn í búrið í níu mis­munandi bar­dögum.

„Frá því að ég byrjaði sjálfur að keppa árið 2010 er ég búinn að þræða hvert krumma­skuðið á fætur öðru í Eng­landi. Fyrir okkar kepp­endur að geta komið hérna inn og haft Ís­lendingana á bak við sig, sína þjóð að styðja sig, ég held að það verði al­gjör­lega ólýsan­legt,“ segir Bjarki Þór Páls­son, bar­daga­kappi og þjálfari hjá RVK MMA sem er einn af skipu­leggj­endum bar­daga­kvöldsins. „Það er bara kominn tími til að geta keppt í þessu hérna heima á Ís­landi.“

Í mörg horn að líta

Það hefur verið í mörg horn að líta hjá Bjarka sem og öðrum skipu­leggj­endum Gla­cier Fig­ht Night.

„Ég er með mjög gott fólk í kringum mig, fékk lög­fræðing til þess að vinna í öllum leyfum og þess háttar. Það fór bara frekar hratt og vel í gegn en það hefur verið í mjög mörg horn að líta, vera alveg frá því að fá breska dómara hingað til landsins yfir í að hækka þetta búr upp í þá hæð sem við þurftum og alveg yfir í að redda rauðu og bláu teipi fyrir bar­daga­kappana til þess að teipa hanskana þeirra.“

Okkar fólk, bæði frá RVK MMA sem og Mjölni munu etja kappi við bar­daga­kappa frá Noregi og Bret­lands­eyjum þar sem keppt verður undir Skandinavísku reglu­verki.

„Bar­dagarnir saman­standa af nokkrum þriggja mínútna lotum, engin oln­boga­högg eða hné­spörk í höfuð eru leyfð og þá verða kepp­endur með þunnar legg­hlífar sem að hylja sköflunginn.“

Rosa­legt kvöld sé í vændum

„Við erum með Norð­menn sem eru að koma hingað og keppa við okkar fólk. Við erum með Breta sem eru að koma yfir líka sem og Reykja­vík MMA á móti Mjölni. Það verður rosa­legur bar­dagi. Ég held það eigi eftir að myndast mikil stemning í húsinu þegar að sá bar­dagi fer fram. 

Þetta eru vel upp­stilltir bar­dagar, enginn þeirra er á þá leið að fyrir fram getir þú bent á hundrað pró­sent sigur­vegara. Við förum mjög hins vegar mjög boru­brött inn í þetta, mitt lið er til­búið að sýna hvað það getur.“

„MMA er ekki ólöglegt“

Ein­hverjir stóðu í þeirri meiningu að ólög­legt væri að keppa í MMA á Ís­landi en ekki Bjarki.

„MMA er ekki ólög­legt. Það er ekkert sem stendur í lögum um blandaðar bar­daga­listir. At­vinnu hnefa­leikar eru bannaðir en annars ekkert í lögunum um það. Við höfum fengið öll til­skilin leyfi og því ekkert sem við erum að gera hér sem er ekki gott.“

Og þetta er bara fyrsta bar­daga­kvöldið af mörgum í huga Bjarka og hans fólks. Framtíðarsýnin er skýr.

„Það er bara að fara alla leið með þetta. Vera með tvö til þrjú svona bar­daga­kvöld á ári og halda áfram að stækka þetta. Það er mikill áhugi fyrir þessu. Barna­starfið í Mjölni er að springa, barna­starfið hjá okkur í RVK MMA er að springa. 

Þó það sé náttúru­lega ein­hver lítil pró­senta iðk­enda sem vill keppa í þessu þá vill fólk æfa þetta, hafa gaman og stunda góða líkams­rækt glímunni, jiu-jitsuinu, glímunni og kick­boxinu. Það eru ekkert allir sem vilja fara alla leið en við viljum fá að koma á bar­daga­kvöld hérna á Ís­landi og horfa á okkar íþrótt.“

„Blundar alltaf í manni einn bardagi í viðbót“

Bjarki Þór hefur í ófá skipti stigið fæti inn í bardagabúrið á erlendri grundu. Hann barðist síðast árið 2017 en óneitanlega er að sjá á honum að það kitlar að stíga aftur inn í búrið á heimavelli.

Bjarki Þór eftir sigur í búrinu á sínum tímavísir/rúnar hroði

„Það blundar alltaf í manni þessi eini bar­dagi í viðbót. Við bara sjáum hvað gerist.“

Ertu að kynda undir ein­hverja endur­komu?

„Nei ég sagði það ekki en hef þó alveg lokað þeirri hurð. Það verður bara að koma í ljós.“

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×