Handbolti

ÍBV með öruggan sigur í Garða­bænum

Árni Jóhannsson skrifar
ÍBV er ásamt Val og ÍR á toppi Olís deildarinnar.
ÍBV er ásamt Val og ÍR á toppi Olís deildarinnar.

ÍBV jafnaði við ÍR og Val á toppi Olís deildar kvenna í handbolta í dag en leikið var í Garðabæ. Leikurinn var lokaleikur 9. umferðar deildarinnar og endaði 26-36. Stjarnan situr sem fastast á botni deildarinnar.

Eyjakonur náðu forskotinu strax í upphafi leiks og var staðan orðin 0-3 eftir þrjár mínútur. Stjörnukonur ætluðu hinsvegar að selja sig dýrt og náðu að jafna metin í 7-7 eftir 13 mínútna leik og var hann í jafnvægi næstu mínútur en heimakonur komust yfir í fyrsta sinn 10-9 sex mínútum síðar.

Þá sögðu Eyjakonur hingað og ekki lengra og hlóðu forskot sem varð sex mörk áður en fyrri hálfleik lauk. Staðan 12-18 í hálfleik og ÍBV leit ekki um öxl. 

Seinni hálfleikurinn var í raun og veru bara formsatriði þar sem ÍBV jók forskotið jafnt og þétt. Þegar flautan gall við 60 mínútna markið var staðan 26-36 og öruggur sigur staðreynd.

Alexandra Viktorsdóttir skoraði átta mörk fyrir ÍBV í níu skotum og Amalia Froland lokaði rammanum með 17 varin skot. Hjá Stjörnunni var Vigdís Arna Hjartardóttir markahæst, einnig með átta mörk í níu skotum, og Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir varði 12 skot.

ÍBV er í fyrsta til þriðja sæti með Val og ÍR en öll liðin eru með 14 stig eftir níu umferðir. Stjarnan á enn eftir að vinna leik í vetur og eru á botni deildarinnar með eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×