Skoðun

Það þarf bara rétta fólkið

Helga Þórisdóttir skrifar

Við færumst á ógnarhraða inn í nýja veröld, þar sem tækniframfarir hafa meiri áhrif á okkar dags daglega líf en nokkru sinni fyrr. Lítil vélmenni sáu um garðslátt í fleiri görðum síðastliðið sumar en nokkru sinni fyrr og fleiri og fleiri nota gervigreindina til að leysa hin margvíslegustu mál.

En sumt breytist ekki. Við höfum okkar grunnþarfir. Viljum við ekki geta keypt húsnæði á viðráðanlegu verði? Er það í boði í Reykjavík í dag? Viljum við ekki að fyrstu íbúðakaup unga fólksins verði gerleg? Getur unga fólkið keypt eign í Reykjavík í dag? Viljum við ekki góða nærþjónustu í okkar byggðarlagi? Er rekstrargrundvöllur fyrir litlu hverfabúðirnar í dag? Viljum við ekki að öll börn komist á leikskóla, helst strax eftir fæðingarorlof? Og viljum við að börnin séu á leikskóla í okkar hverfi – eða viljum við þurfa að keyra borgina á enda til að koma barni í pláss, eins og staðan er í dag? Og viljum við ekki græn og falleg svæði í byggðinni okkar, eða viljum við fylla þau öll af steypu? Og viljum við bjóða fólki að búa í nýjum íbúðum, án bílskúrs, svo að segja ofan í götunni, þar sem öll viðmið um desibel eru löngu sprungin?

Höfuðborgin okkar er lítil miðað við flesta mælikvarða. Við eigum að geta leyst betur grunnþættina í því sem gerir borg að góðri borg. Dæmin hér að ofan eru ekki óyfirstíganleg. Það þarf bara að hafa rétta fólkið og rétta forgangsröðun.

Höfundur er forstjóri Persónuverndar og íbúi í Reykjavík




Skoðun

Sjá meira


×