Skoðun

Brýtur inn­viðaráðherra lög?

Örvar Marteinsson skrifar

Enn hefur innviðaráðherra ekki birt reglugerð um línuívilnun, skel og rækjubætur eða byggðakvóta, þrátt fyrir að lög kveði á um að það skuli gert fyrir hvert fiskveiðiár. Fyrir utan að þetta sé augljóslega brot á gildandi lögum, þá er þetta mikil vanvirðing við þá sem stunda viðkomandi línuveiðar á smábátum, eða treysta á úthlutun viðkomandi byggðaaðgerða. Síðustu ár hefur úthlutunin verið kynnt strax í júlí og gefið þannig fyrirvara til að ráða starfsfólk fyrir komandi fiskveiðiár, en nú bíða menn annað hvort í óvissu eða skjóta út í bláinn. Línuívilnunin er forsenda þess að viðkomandi bátar haldist í rekstri og skapi atvinnu megnið af árinu bæði á sjó og í landi. Nú þegar hefur innviðaráðherra skapað þær aðstæður að nokkur fjöldi fólks hefur misst vinnuna eða á það yfir höfði sér.

Vill innviðaráðherra aukna samþöppun í sjávarútvegi?

Samþjöppun í sjávarútvegi hefur oft borið á góma. Afnám línuívilnunar mun valda því að þessir minni bátar, flestir ekki yfirbyggðir og hafa ekki pláss fyrir beitningavél, munu gefast upp. Það mun valda enn frekari samþjöppun og aðeins þeir stærstu munu geta keypt. Tekið skal fram að stórútgerðin hefur verið að hasla sér völl í krókaaflamarkskerfinu.

Krókaaflamarksbátar hafa enga hagræðingarmöguleika, geta ekki valið sér veiðarfæri og búa við ýmsar aðrar takmarkanir sem þekkjast ekki í aflamarkskerfinu. Ef ekki kemur til aukins veiðarfærafrelsis innan kerfisins er nánasta framtíð augljós. Þegar veiðigjöld hækka gríðarlega og ef línuívilnun leggst af er einungis eitt að gera hjá fjölda útgerða, og það er að leggja upp laupana og selja þeim stóru.

Höfundur er smábátasjómaður.




Skoðun

Sjá meira


×