Innlent

Um­boðs­maður óskar svara um notkun lög­reglu á hrákagrímum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hér má sjá mann bera svokallaða hrákagrímu, eftir að hafa verið handtekinn á mótmælum í Lundúnum.
Hér má sjá mann bera svokallaða hrákagrímu, eftir að hafa verið handtekinn á mótmælum í Lundúnum. Getty/Mark Kerrison

Umboðsmaður Alþingis hefur beint fyrirspurn til dómsmálaráðuneytisins um það hvort einhverjar reglur séu til staðar um notkun svokallaðra „hrákagríma“.

„Hrákagrímur“ eru margs konar en yfirleitt er um að ræða einhvers konar grímu eða höfuðpoka sem komið er fyrir yfir höfði fólks til að koma í veg fyrir að það hræki á lögreglumenn eða aðra.

Umboðsmaður vekur athygli á því í erindi sínu til ráðuneytisins að ekki sé fjallað um hrákagrímur í reglum um valdbeitingu lögreglumanna og notkun valdbeitingartækja og vopna.

Ætla megi að í langflestum tilvikum þurfi þó að beita valdi til að koma grímunni fyrir á höfði fólks.

Umboðsmaður óskar þannig upplýsinga um það hvort einhverjar reglur séu til staðar um notkun grímanna og ef svo er, hvort þær séu samræmdar fyrir öll lögregluembætti.

Þá er óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort notkun grímanna feli í sér valdbeitingu og hvort gríman sé þá valdbeitingartæki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×