Viðskipti innlent

Óboðlegt að stórir aðilar auki arð­semi í krafti fá­keppni

Lovísa Arnardóttir skrifar
Finnbjörn Hermannsson er forseti ASÍ.
Finnbjörn Hermannsson er forseti ASÍ. Vísir/Arnar

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands telur ákvörðun peningastefnunefndar að lækka stýrivexti skref í rétta átt nú þegar skýr merki eru um kólnun í hagkerfinu. Í tilkynningu segir að peningalegt aðhald þrengi nú þegar verulega að skuldsettum heimilum og geti ýtt undir hraðari kólnun hagkerfisins og stuðlað að auknu atvinnuleysi. Miðstjórn minnir í tilkynningu á skuldbindingar atvinnulífs að halda aftur af verðhækkunum og loforð stjórnvalda um að halda aftur af gjaldskrárhækkunum

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands telur ákvörðun peningastefnunefndar að lækka stýrivexti skref í rétta átt nú þegar skýr merki eru um kólnun í hagkerfinu. Í tilkynningu segir að peningalegt aðhald þrengi nú þegar verulega að skuldsettum heimilum og geti ýtt undir hraðari kólnun hagkerfisins og stuðlað að auknu atvinnuleysi.

Peningastefnunefnd tilkynnti í morgun ákvörðun sína um að lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig. Helstu greiningaraðilar höfðu spáð því að nefndin myndi halda stýrivöxtunum óbreyttum.

Launaskrið á vinnumarkaði ekki á ábyrgð launafólks

Í tilkynningu miðstjórnar ASÍ segir enn fremur að samkvæmt spá Seðlabankans muni hægja verulega á hagvexti á þessu ári og hinu næsta.

„Þar dregur bæði úr útflutningi stóriðju og sjávarafurða. Jafnframt er búist við auknu atvinnuleysi á næstu misserum. Á sama tíma væntir bankinn þess að einkaneysla vaxi nokkuð. Nýlegar tölur um kortaveltu eru til marks um að hluti þjóðarinnar sé í góðu skjóli hárra vaxta og geti haldið uppi mikilli neyslu á meðan byrðar peningastefnunnar eru bornar af skuldsettum heimilum og ungu fólki. Verkalýðshreyfingin bendir á að umsamdar launahækkanir kjarasamninga tryggðu launafólki hóflegar launahækkanir sem studdu við verðbólgumarkmið Seðlabankans og áhyggjur Seðlabankans af launaskriði á vinnumarkaði eru ekki á ábyrgð almenns launafólks,“ segir í tilkynningunni.

Þá bendir miðstjórn á að þó svo að megindrifkraftur verðbólgu um þessar mundir sé enn hækkanir á leiguverði sem rekja megi til framboðsskorts og úrræðaleysis stjórnvalda á húsnæðismarkaði. Við hátt vaxtastig og stíf lánþegaskilyrði sé fyrirséð að áfram muni spenna ríkja á leigumarkaði og ýta undir aukinn ójöfnuð milli þeirra sem eiga og þeirra sem eiga ekki.

„Óþolandi er að launafólk, ungt fólk og einstaklingar á leigumarkaði beri þyngstu byrðarnar af hagstjórnarmistökum og óstjórn í húsnæðismálum,“ segir í tilkynningu miðstjórnar.

Þar er bent á að hægt hafi á hjöðnun verðbólgunnar og að hún skýrist nú í auknum mæli af hækkunum á matvælaverði. Miðstjórn kallar eftir að fyrirtæki og hið opinbera sýni ábyrgð og standi við markmið þeirra kjarasamninga sem gerðir voru í mars 2024. Miðstjórn segir óboðlegt að stórir aðilar í heildsölu, smásölu og eldsneytissölu gangi gegn markmiðum kjarasamninga og auki arðsemi í krafti fákeppni.

„Miðstjórn ASÍ minnir á að langtímakjarasamningar voru undirritaðir í fyrra með það meginmarkmið að stuðla að lækkun vaxta og minni verðbólgu. Í því fólst skuldbinding um að atvinnulífið héldi aftur af verðhækkunum og loforð stjórnvalda um að halda aftur af gjaldskrárhækkunum. Við þetta hefur ekki verið staðið og engin sátt mun ríkja á vinnumarkaði ef fyrirtæki og opinberir aðilar skorast undan þessari ábyrgð sinni,“ segir að lokum í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×