Enski boltinn

„Þetta er mjög erfið staða í augna­blikinu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk ræðir við þá Ibrahima Konate og Alexander Isak en vildi greinilega að enginn læsi varir hans.
Virgil van Dijk ræðir við þá Ibrahima Konate og Alexander Isak en vildi greinilega að enginn læsi varir hans. Getty/ Molly Darlington

Liverpool var niðurlægt á heimavelli sínum í ensku úrvalsdeildinni í dag og eftir leikinn fór fyrirliðinn Virgil van Dijk í viðtal og vonbrigðin leyndu sér ekki.

„Við fáum á okkur of mörg auðveld mörk. Þeir skoruðu augljóslega aftur úr föstu leikatriði. Það má spyrja hvort hann hafi verið fyrir framan Alisson, en markið stóð, svo við lentum 1-0 undir. Við vorum ekki góðir í baráttunni, tæklingunum, átökunum, of fljótfærir. Þetta er mjög erfið staða í augnablikinu,“ sagði Virgil van Dijk við PLP eftir leik.

„Það var taugatitringur eftir að við fengum á okkur markið, en ekki fyrir það. Við reyndum að flýta okkur og það er mannlegt þegar maður er í erfiðri stöðu. Við hreinsuðum þau sem komu áður og á endanum erum við í mjög erfiðri stöðu. Við komumst ekki út úr þessu með því einu að tala um það. Það mun krefjast mikillar vinnu,“ sagði Van Dijk.

„Þetta er vandamál. Allir í liðinu verða að taka ábyrgð líka. Fótbolti er liðsíþrótt og allir verða að taka ábyrgð. Við verðum að kyngja þessu og taka því. Við þurfum að leggja harðar að okkur. Við verðum að halda áfram,“ sagði Van Dijk.

„Allir eru vonsviknir, eins og þeir ættu að vera, því að tapa heima fyrir Nottingham Forest er, í mínum augum, mjög slæmt. Það er það minnsta sem ég get sagt um það. Mörkin sem við fengum á okkur eru allt of auðveld og við verðum allir að líta í spegil. Ég er búinn að vera hjá þessu félagi svo lengi núna og við höfum gengið í gegnum mótlæti. Við munum koma til baka en það gerist ekki á einni nóttu. Ég er enginn uppgjafarmaður og við munum halda áfram,“ sagði Van Dijk.

Hann var spurður út í þá staðreynd að stuðningsmenn Liverpool yfirgáfu völlinn langt fyrir leikslok sem er mjög óvanalegt á Anfield.

„Ég get ekki ráðið því hvað stuðningsmennirnir gera ef þeir fara snemma. Ég veit að aðdáendurnir hafa staðið með okkur í gegnum súrt og sætt. Þeir munu vera með okkur þegar við komumst út úr þessu, því við munum komast út úr þessu,“ sagði Van Dijk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×