Fótbolti

Glódís Perla hvíld en mjög fljót að ná sér í gult spjald

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir með Georgiy Stanway sem skoraði fyrsta mark Bæjara í dag.
Glódís Perla Viggósdóttir með Georgiy Stanway sem skoraði fyrsta mark Bæjara í dag. Getty/ Jean Catuffe

Íslenski landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir var á varamannabekknum í kvöld þegar Bayern München hélt sigurgöngu sinni áfram í þýsku deildinni.

Bayern vann þá 5-1 útisigur á TSG 1899 Hoffenheim. Heimakonur í Hoffenheim voru manni færri frá 44. mínútu leiksins.

Bayern varð fyrir smá áfalli í byrjun leiks án íslenska landsliðsmiðvarðarins því liðið lenti undir eftir aðeins tíu mínútna leik.

Enski miðjumaðurinn Georgia Stanway jafnaði metin fyrir hálfleik og Bayern skoraði síðan tvö mörk á upphafsmínútum seinni hálfleiks.

Alara Sehitler og Momoko Tanikawa skoruðu þau mörk en Tanikawa var búin að bæta við öðru marki áður en Glódís Perla kom inn á sem varamaður á 76. mínútu.

Glódís var búin að ná sér í gult spjald aðeins mínútu síðar.

Arianna Caruso skoraði fimmta mark Bæjara á 81. mínútu og liðið fagnaði stórsigri. Bayern hefur náð í 31 stig af 33 mögulegum á leiktíðinni og er með sex stiga forystu á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×