Enski boltinn

Slot hefur ekki á­hyggjur af því að vera rekinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, situr mögulega í heitasta stjórastólnum í dag.
Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, situr mögulega í heitasta stjórastólnum í dag. Getty/Carl Recine

Þrjú stór töp í röð og níu töp í síðustu tólf leikjum. Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur sagt að hann hafi ekki áhyggjur af stöðu sinni hjá Liverpool þrátt fyrir afhroð liðsins gegn PSV Eindhoven í Meistaradeild Evrópu.

Liverpool tapaði 4-1 fyrir toppliði hollensku úrvalsdeildarinnar á Anfield á miðvikudag og hefur nú tapað níu af síðustu 12 leikjum sínum í öllum keppnum.

Ensku meistararnir eru nú í tólfta sæti ensku úrvalsdeildarinnar og þrettánda sæti í Meistaradeildinni og pressan á Slot að snúa genginu við eykst.

Aðspurður hvort hann hafi áhyggjur af framtíð sinni hjá félaginu sagði Slot á blaðamannafundi: „Ég hef ekki áhyggjur. Það sem ég á við með því er að ég einbeiti mér að öðru en að hafa áhyggjur af minni eigin stöðu.“

Slot var að ræða komandi leik á móti West Ham í ensku úrvalsdeildinni um komandi helgi þar sem hann reynir að enda þriggja leikja taphrinu liðsins með þremur mörkum eða meira.

„Ég reyni að greina, reyni að hjálpa leikmönnunum eins mikið og ég get og það er augljóst að ég geri það ekki á sama hátt og á síðasta tímabili, því þegar talað er um einstaklingsmistök, þá held ég að það sé líka eitthvað sem kemur frá liðsheildinni,“ sagði Slot.

„Þannig að, aftur, ég þarf að gera betur og það er það sem ég reyni að gera á hverjum einasta degi til að bæta liðið og það er það sem ég einbeiti mér að,“ sagði Slot.

Liverpool hefur nú fengið á sig þrjú eða fleiri mörk í þremur leikjum í röð í fyrsta sinn síðan í september 1992 og er búið að tapa þremur leikjum með þriggja marka mun í fyrsta sinn síðan 1953.

Aðspurður hvort hann finni fyrir stuðningi frá stjórn Liverpool bætti Slot við: „Já, en ekki í þeim skilningi að þeir segi við mig á hverri einustu mínútu: ‚Við styðjum þig, við styðjum þig, við styðjum þig‘,“ sagði Slot.

„En við tölum mikið saman, hvort sem við erum að vinna eins og á síðasta tímabili eða að tapa, þá eru þeir hjálplegir mér og liðinu. Svo já, við eigum þessi samtöl, en þeir hringja ekki í mig á hverri einustu mínútu dagsins til að segja mér að þeir treysti mér enn,“ sagði Slot.

„En við eigum eðlileg samtöl og í þeim samtölum finn ég fyrir trausti, en ég hef ekki talað við þá eftir þennan leik enn þá. Svo við skulum sjá til,“ sagði Slot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×