Erlent

Krefjast svara um fyrir­skipanir Hegseth varðandi bátaárásirnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Repúblikaninn Mike Turner er meðal þeirra sem krefst skýrari svara frá Pentagon.
Repúblikaninn Mike Turner er meðal þeirra sem krefst skýrari svara frá Pentagon. Getty/Anadolu/Nathan Posner

Þingmenn bæði Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins krefjast nú svara við því hvort að Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hafi gefið fyrirskipun um að skjóta alla um borð í bátum sem herinn hefur grandað á Karíbahafi.

Washington Post greindi frá því á föstudag að Hegseth hefði gefið munnlega skipun þess efnis, sem hefði leitt til þess að gerðar voru endurteknar árásir á skotmörk til að drepa þá sem komust lífs af í fyrri árásum.

Bandaríkjastjórn hefur sætt harðri gagnrýni fyrir árásir sínar á bátana, sem hún segir hafa staðið í fíkniefnaflutningum. Stjórnvöld hafa ekki séð ástæðu til að leggja fram nein sönnunargögn þess efnis.

Ef rétt reynist er mögulega um stríðsglæp að ræða.

„Ef þetta átti sér stað, þá er það augljóslega mjög alvarlegt, og ég er sammála því að það væri ólöglegur gjörningur,“ sagði Repúblikaninn Mike Turner, fyrrverandi formaður leyniþjónustunefndar fulltrúadeildarinnar, á CBS.

Tim Kaine og Mark Kelly, öldungadeildarþingmenn Demókrataflokksins, tóku í sama streng í sjónvarpsviðtölum um helgina.

Nefndir bæði fulltrúadeildarinnar og öldungadeildarinnar sem hafa eftirlit með hernum hyggjast nú krefjast ítarlegri upplýsinga um aðgerðir stjórnarinnar gegn bátunum á Karíbahafi.

Bæði Washington Post og Intercept hafa greint frá því að gerðar hafi verið árásir í kjölfar þeirra sem grönduðu bátunum til að drepa eftirlifendur í sjónum. Hegseth hefur varið framgöngu hersins en neitaði því ekki beint að hafa gefið fyrirskipunina. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýst yfir trausti á ráðherranum. 

New York Times greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×