Erlent

Krefja Farage um heiðar­leika og af­sökunar­beiðni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Farage fór áður fyrir UKIP og barðist ötullega fyrir Brexit.
Farage fór áður fyrir UKIP og barðist ötullega fyrir Brexit. Getty/Dan Kitwood

Ellefu einstaklingar sem lifðu Helförina krefjast þess að Nigel Farage, leiðtogi Reform UK, segi satt og biðjist afsökunar á framgöngu sinni á skólaárum sínum.

Guardian greindi frá því í vikunni að Farage hefði verið fordómafullur og orðljótur gagnvart gyðingum og öðrum minnihlutahópum þegar hann var ungur maður. Farage hefur neitað því að hafa lagt samnemendur sína í einelti sökum uppruna þeirra en játað að hafa mögulega „gantast á skólalóðinni“.

„Sem fórnarlömb Helfararinnar þá skiljum við hættuna á bakvið hatursfulla orðræðu, því við höfum séð hvert hún leiðir,“ segir í bréfi fólksins til Farage. „Verum alveg skýr: að mæra Hitler, að grínast með gasklefa eða að niðurlægja með rasisma er ekki leikur. Ekki á skólalóð, ekki neins staðar.“

Meðal þeirra 28 sem stigið hafa fram og lýst rasískum tilburðum Farage er leikstjórinn og framleiðandinn Peter Ettedgui, sem hefur unnið til Bafta- og Emmy-verðlauna. Hann greindi frá því hvernig Farage læddist upp að honum og sagði hluti eins og „Hitler hafði rétt fyrir sér“ og „gasið þá“.

Aðrir hafa staðfest frásögn Ettedgui og greint frá eigin upplifun af framkomu Farage.

Bréfritararnir spyrja Farage beint út hvort hann sé að væna alla þessa einstaklinga um lygar og hvetja hann til að axla siðferðilega ábyrgð.

Reform UK hefur verið að mælast með allt að 25 prósent fylgi í könnunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×