Erlent

Bíl­stjórinn með­vitundar­laus þegar rútan lenti á bið­skýlinu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Atvikið átti sér stað í miðborg Stokkhólms um miðjan síðasta mánuð.
Atvikið átti sér stað í miðborg Stokkhólms um miðjan síðasta mánuð. EPA

Rannsóknarnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að rekja má rútuslys sem varð í Stokkhólmi í nóvember til veikinda bílstjórans. Þrír létust þegar rútu var ekið á biðskýli í höfuðborginni en bílstjórinn var á sínum tíma handtekinn vegna málsins.

Það var síðdegis þann 14. nóvember sem rútunni var ekið á biðskýli miðsvæðis í Stokkhólmi með þeim afleiðingum að þrjár konur sem þar voru létust. Síðasta farþeganum hafði verið hleypt út og vagninn ekki lengur á leið þegar slysið varð. Bílstjórinn er grunaður um að hafa valdið öðrum bana og líkamstjóni en rannsókn hefur ekki leitt í ljós að það hafi verið af ásettu ráði.

Nú hefur rannsóknarnefnd samgönguslysa í Svíþjóð upplýst að slysið megi rekja til veikinda bílstjórans. Myndavélar eru í vagninum en á myndefni má sjá að bílstjórinn veikist skyndilega og er meðvitundarlaus þegar rútan lendir á biðskýlinu að því er sænska ríkisútvarpið SVT hefur eftir Jonasi Bäckström hjá rannsóknarnefndinni.

Í ljósi þessa verði rannsókn málsins ekki framhaldið af hálfu nefndarinnar, en ekki liggur fyrir enn hvort saksóknari haldi áfram sinni rannsókn. Haft er eftir Bäckström að bílstjórar undirgangist reglubundið heilbrigðiseftirlit. Í þessu tilfelli hafi veikindin komið upp mjög óvænt jafnvel þótt bílstjórinn hafi undirgengist nauðsynlega skoðun. Eftirgrennslan SVT leiddi í ljós að bílstjórinn hafi skilað inn nauðsynlegum gögnum fyrir heilbrigðisvottorð vegna aukinna ökuréttinda árið 2021 án athugasemda. Á næsta ári þurfi hann næst að endurnýja ökuréttindi sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×