Innlent

Vatnshæðin að­eins lækkað í Skaft­á

Lovísa Arnardóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Björgvin Karl Harðarson, bóndi á Hunkubökkum, við ánna í gær.
Björgvin Karl Harðarson, bóndi á Hunkubökkum, við ánna í gær. Dagný

Hlaupið heldur áfram á svipuðum hraða í Skaftá. Náttúruvársérfræðingur segir vatnshæð um 180 sentímetra og að Veðurstofan eigi ekki von á því, eins og staðan er núna, að tjónið verði verulegt af hlaupinu. 

„Staðan er ósköp svipuð, það hefur aðeins lækkað vatnshæðin, en það er ekki mikið. Hlaupið heldur bara áfram,“ segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, og að of snemmt sé að segja til um það hvort hlaupið sé í rénun.

Hún segir vatnshæðina um 180 sentímetra eins og er sem sé í minni kantinum. „Eins og gott sumarrennsli.“

Hún segir reynsluna sýna að þetta geti tekið nokkra daga og þau verði að sjá í dag og á morgun hvort að hámarksrennsli hafi verið náð. Eins og staðan er núna óttist sérfræðingar Veðurstofunnar ekki að vatnshæð verði það mikil að hún valdi miklu tjóni.

Fram kom í tilkynningu í gær að hlaupið hefði hafist aðfaranótt sunnudags og að það hafi verið hægvaxandi fram til miðnættis í gær. Þar kom einnig fram að rennslið væri örlítið meira en mesta sumarrennsli, eða um 250 rúmmetrar á sekúndu. Leiðni hefur jafnframt farið vaxandi og hafa tilkynningar borist um brennisteinslykt af ánni.

Björgvin Karl Harðarson bóndi á Hunkubökkum í Skaftárhreppi tók eftir miklum breytingum á ánni milli daga og lýsti miklum breytingum á ánni í samtali við Vísi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×