Körfubolti

Fyrsti sigur Hamars/Þórs kom gegn Kefla­vík

Aron Guðmundsson skrifar
Frá leik Hamars/Þórs á síðasta tímabili. Matilda Sóldís, leikmaður liðsins hér með boltann gegn Njarðvík
Frá leik Hamars/Þórs á síðasta tímabili. Matilda Sóldís, leikmaður liðsins hér með boltann gegn Njarðvík Vísir/Anton Brink

Botnlið Hamars/Þórs vann í kvöld sinn fyrsta sigur í Bónus deildinni er liðið lagði Keflavík að velli í Hveragerði. Lokatölur 75-71, Hamar/Þór í vil.

Fyrir leik kvöldsins hafði Keflavík unnið fjóra leiki í röð og virtist vera komið á gott skrið en heimakonur mættu einbeittar til leiks í Hveragerði í kvöld og ollu leikmönnum Keflavíkur töluverðum vandræðum. 

Heimakonur byrjuðu af krafti og voru sex stigum yfir 17-11 eftir fyrsta leikhlutann. Næstu þrír leikhlutar voru afar jafnir en aldrei tókst þeim keflvísku að komast á skrið og snúa leiknum sér í vil. 

Botnliðið sýndi mikla þrautseigju og baráttuanda og vann að lokum fimm stiga sigur 75-71.

Fyrsti sigur Hamars/Þórs á tímabilinu staðreynd. Tíu leikja taphrina tímabilsins til þessa á enda og fyrstu stigin komin í hús.

Þegar litið er yfir tölfræði leiksins má sjá að það var ekki bara einhver einn leikmaður heimaliðsins sem ákvað að stíga upp í kvöld. Þær fengu framlag frá mörgum leikmönnum til þess að ná í þennan kærkomna sigur. 

Jadakiss Nashi Guinn var stigahæst í liði Hamars/Þórs með 24 stig. Hún tók einnig fjögur fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. 

Þá skiluðu þær Jóhanna ÝR og Mariana Duran fjórtán stigum hvor en að auki reif Mariana niður fimmtán fráköst. Þá skiluðu þær Ellen Iversen og Jovana Markovic einnig góðu dagsverki. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×