Skoðun

Betri en við höldum

Hjálmar Gíslason skrifar

Heimurinn er betri en við höldum. Með því að tala aldrei um annað en það sem betur má fara höfum við skapað tækifæri fyrir lýðskrumara sem selja hættulegar hugmyndir um orsakir „vandans“ og lausnir á honum.

Við erum uppi á fallegustu og friðsömustu tímum sögunnar. Við sem nú lifum höfum meiri tækifæri til að vera og gera það sem við viljum en nokkur kynslóð á undan okkur, lifum lengra og betra lífi við meira öryggi, höfum aðgang að meiri og betri þekkingu og þurfum minna að hafa fyrir lífinu en þau sem á undan okkur komu.

Þrátt fyrir það eru fréttirnar og almenn og opinber umræða gegnsýrð af því hvað allt sé ömurlegt. Það er enginn að minna okkur á fegurðina, réttindin, þægindin og möguleikana sem framþróun samfélagsins hefur fært okkur. Og það er enginn að mála framtíðina í björtu ljósi, þó það sé engin ástæða til að halda að tækifæri okkar til að bæta heiminn séu nokkurs staðar nærri því að vera búin. Tæknin, vísindin, markaðurinn og ríkisvaldið - samfélagsgerðin - sem við höfum byggt upp býður svo sannarlega upp á það.

Auðvitað er margt sem má gera enn betur, en ef við keppumst við að mikla þá hluti fyrir okkur, gleymum við að minna okkur á og þakka fyrir það sem við höfum. Og ef enginn sér og málar framtíðina í björtu ljósi, vinnur enginn að því að gera bjarta framtíðina að veruleika.

Í staðinn gerum við sjálf okkur, foreldra okkar og börnin okkar óánægð með ofurallsnægtirnar sem við búum við og æ fleiri halla sér að sölumönnum róttækra breytinga sem kenna fólki sem enga ábyrgð ber um vandamálin sem í stóra samhenginu eru varla til staðar.

Höfundur er frumkvöðull og óseðjandi áhugamaður um allt milli himins og jarðar.




Skoðun

Sjá meira


×