Innlent

Segja frekari úr­bóta þörf og vísa meðal annars til PPP

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
GRECO segir að setja þurfi reglur um önnur störf lögreglumanna og störf þeirra eftir að þeir hætta hjá löggunni.
GRECO segir að setja þurfi reglur um önnur störf lögreglumanna og störf þeirra eftir að þeir hætta hjá löggunni.

Samráðshópur ríkja Evrópuráðsins gegn spillingu (GRECO) hefur lokið athugun sinni gagnvart Íslandi. Fyrsta skýrsla GRECO um Ísland í fimmtu eftirlitslotu var gefin út árið 2018. GRECO lagði fram átján tillögur til að sporna gegn spillingu innan hins opinbera og hjá löggæsluyfirvöldum. Þrettán hafa nú verið innleiddar, fjórar innleiddar að hluta en ein ekki.

Þetta kemur fram skýrslu GRECO, sem var samþykkt 21. nóvember síðastliðinn.

Í skýrslunni eru gerðar athugasemdir við að stjórnvöld hafi ekki enn sett reglur um viðurlög við brotum gegn siðareglum. Þá eru gerðar athugasemdir við að engin viðurlög séu í gildi við því að embættismenn geri ekki réttilega grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum.

GRECO gerir einnig athugasemdir við að lögreglumönnum og starfsmönnum Landhelgisgæslunnar sé ekki boðið upp á skipulagða, faglega og ókeypis ráðgjöf þegar þeir standa frammi fyrir siðferðilegum álitamálum við störf.

Sú tillaga sem ekki hefur verið innleidd varðar skýrar, réttlátar og gagnsæjar reglur þegar kemur að ákvörðunum um að endurskipa ekki í embætti innan lögreglunnar og möguleika á að áfrýja slíkum ákvörðunum. Hins vegar segir að unnið sé að þessu og að tíðinda sé að vænta á þessu ári.

GRECO lagði einnig til árið 2018 að ráðist yrði í athugun á störfum lögreglumanna meðfram löggæslustörfum og eftir að þeir létu af störfum hjá lögreglunni. Þá yrðu reglur settar þar að lútandi í framhaldinu.

Í skýrslunni segir að farið hafi verið eftir tillögunum að hluta en einnig vísað til fregna af njósnum fyrirtækisins PPP, sem var starfrækt af Jóni Óttari Ólafssyni og Guðmundi Hauki Gunnarssyni, fyrrverandi lögreglumönnum. Nauðsynlegt sé að setja skýrari reglur um önnur störf lögreglumanna en það hafi ekki verið gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×