Innlent

Eyja­menn ó­sáttir við nýbirta samgönguáætlun

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja er ekki par sátt við nýkynnta samgönguáætlun. 
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja er ekki par sátt við nýkynnta samgönguáætlun.  Vísir/Ívar Fannar

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum gagnrýnir harðlega nýframkomna samgönguáætlun sem hún segir að komi Eyjamönnum afar illa. Hún segir eyjaskeggja ekki lesa það úr áætluninni að nú skuli ræsa vélarnar, eins og Eyjólfi Ármannssyni innviðaráðherra varð tíðrætt um þegar áætlunin var kynnt.

„Við verðum bara ekki vör við það,“ sagði Íris í Bítinu á Bylgjunni í morgun. „Og þetta voru mikil vonbrigði að lesa í gegnum þetta. Okkar þjóðvegur er Herjólfur og það hefur verið bara núna í vikunni umfjöllun um sandmoksturinn í Landeyjahöfn. Ríkisendurskoðun hefur verið með það mál enda er gríðarlegur kostnaður við moksturinn þar. En á meðan við búum við það að þetta sé okkar þjóðvegur þá þurfum við náttúrulega að sinna höfninni,“ segir Íris og minni á að það hafi verið Alþingi sem ákvað að Landeyjahöfn yrði samgöngumáti Eyjamanna til framtíðar.

Hún gerir einnig alvarlega athugasemdir við að til standi að skerða framlög ríkisins til ferjusiglinga. „Samkvæmt þessu ætla þeir á næstu fimm árum að taka samningana niður úr einum komma sjö milljörðum og niður í einn komma fjóra, sem er skerðing upp á þrjúhundruð milljónir.“

Íris bendir á að langstærsti samningurinn þegar kemur að ferjusiglingum við landið sé við Vestmannaeyjar. „Og það er auðvitað ekkert hægt að bjóða fólki hér upp á það að á sama tíma og verið sé að það eigi að bæta vegakerfi landsins og laga hluti þá sé í kortunum að skerða samgöngurnar okkar," segir Íris en viðtalið við hana má heyra í heild sinni hér að neðan: 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×