Skoðun

„Rúss­land hefur hins vegar ráðist inn í 19 ríki“

Einar Ólafsson skrifar

Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur varð ekki orða vant í Silfrinu mánudaginn 8. desember þar sem hún ræddi stöðu Íslands í breyttum heimi. Hún talaði um óttastjórnun og ógnarstjórnun þar sem verið sé að tala niður EES-samninginn og Evrópusambandið, „það er jafnvel verið að tala niður NATO“, sagði hún og benti á að „þegar við stöndum frammi fyrir því að það er verið að ala á ótta og ala á óvissu – að þá tökum við ekki rökréttar ákvarðanir“. Hún talaði um mikilvægi NATO og vísaði í söguna þegar við, herlaus þjóðin, ákváðum verða stofnaðili að NATO.

Varðandi frið í Úkraínu benti hún á að hann verði „að vera réttlátur, langvarandi, það þarf að virða friðhelgi landamæra og alþjóðalög, ellegar munum við bara standa frammi fyrir því – munandi aftur söguna – að það hefur ekkert ríki ráðist inn í Rússland, Rússland hefur hins vegar ráðist inn í 19 ríki – og við skulum ekki draga dul yfir það að mesta ógnin – og NATO, eins og ég ítrekaði hér áðan – það er NATO sem hefur sagt að mesta ógnin stafar af Rússum.“

Það er eins og hún muni allt í einu eftir þessu: „það hefur ekkert ríki ráðist inn í Rússland, Rússland hefur hins vegar ráðist inn í 19 ríki.“

Kaja Kallas leitar upplýsinga

Ég hef aldrei haft neina tölu á innrásum Rússa undanfarna áratugi og mér datt í hug að leita nánari upplýsinga um þessa tölu og hvað lægi að baki henni. Við stutta leit á netinu datt ég niður á ritstjórnargrein í Guardian frá 29. nóvember, „The week Europe realised it stands alone against Russian expansionism“.

Ritstjórinn segir frá því í upphafi greinar sinnar að Kaja Kallas, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, hafi fyrr í þeirri viku beðið aðstoðarmenn sína að finna út hversu oft Rússland hefði – í hinum ýmsu myndum – ráðist inn í önnur lönd á 20. og 21. öld. Svarið sem hún fékk var 33 sinnum í 19 lönd.

Ég fór aftur í leit á netinu til að finna upplýsingar um þessar 33 innrásir í 19 ríki. Og fann það náttúrulega á Wikipedia undir yfirskriftinni „Russian invasion“, sem vísar til greina um innrásir Rússa frá 1580 til dagsins í dag. Og þar eru taldar upp frá árinu 1900 innrásir í 19 lönd, svo að mér datt í hug að starfsmenn Kaju Kallas hefðu bara rambað á þennan sama stað á netinu. En hér eru þó ekki taldar upp 33 innrásir heldur bara 25, ef hernaðarátökum í Úkraínu frá 2014 er skipt upp í þrjár innrásir. En tölu landanna ber saman.

Það er heldur mikið mál að fara í saumana á öllum þessum 25 innrásum í 19 lönd sem í sumum tilvikum eru hluti af allflókinni sögu. En lítum þó lauslega á þær.

Fyrri heimstyrjöldin og októberbyltingin

17. ágúst 1914 gerði Rússland innrás í Austur-Prússland sem tilheyrði Þýska keisaradæminu. En þá þarf kannski að hafa í huga að 1. ágúst hafði Þýskaland lýst yfir stríði á hendur Rússum og síðan á hendur Frökkum 3. ágúst. Þessar stríðsyfirlýsingar eru yfirleitt taldar marka upphaf fyrri heimsstyrjaldar. Rússland hörfaði aftur innan mánaðar og síðar áttu Þjóðverjar eftir að sækja töluvert inn í lönd Rússneska keisaradæmisins.

Á árunum 1917 til 1921 er getið um fimm lönd sem Rússland réðist inn í. Öll tilheyrðu þau Rússneska keisaradæminu fyrir byltinguna að öllu eða miklu leyti, Pólland, Úkraína, Aserb­aísjan, Armenía og Georgía. Þetta er flókin saga. Í löndum sem höfðu tilheyrt keisaradæminu var mikil stéttaskipting og stéttaátök en einnig þjóðernishreyfingar og byltingarhreyfingar sem töldu sig sumar hluta af þeim byltingarflokki sem tók völdin í Rússlandi í nóvember 1917 og treystu á hið nýja byltingarríki. Á sama tíma sendu mörg vestræn ríki, sem höfðu staðið hvert gegn öðru í styrjöldinni, hersveitir inn í bæði Rússland og önnur lönd þar sem átök urðu til að berja niður byltingarhreyfinguna og tryggja sér ítök. Rússland var því ekki síður í vörn en sókn. Hvaða skoðun sem maður hefur á þessu öllu, þá er vægast sagt mikil einföldun að tala eins og þarna hafi verið um að ræða beinar innrásir heimsvaldasinnaðs stórveldis.

Seinni heimsstyrjöldin

Á árunum 1939 til 1940 er getið um sjö lönd, Finnland, Pólland, Eystrasaltslöndin, Bessarabíu og Norður-Búkóvínu. Menn hafa haft ýmsar skoðanir á griðarsáttmála Þýskalands og Rússlands í ágúst 1939 þar sem Austur-Evrópu var skipt í áhrifasvæði og Rússum áskilið athafnafrelsi í Austur-Póllandi, Eystrasaltsríkjunum og Bessarabíu. En það verður samt ekki horft fram hjá því að Rússum stafaði ógn af Þjóðverjum, þeir þurftu að vinna sér tíma og koma ár sinni fyrir borð. Finnland var líka að hluta til á því svæði sem Rússar töldu sig þurfa og þannig stóð á finnska vetrarstríðinu. Þótt við höfum fulla samúð með Pólverjum og Finnum og fordæmum innlimun Eystrasaltsríkjanna í Sovétríkin, þá verður ekki horft fram hjá því að þetta gerðist þegar Sovétríkin töldu árás á sig yfirvofandi, árás sem átti svo eftir að verða að veruleika með skelfilegum afleiðingum.

Áhrifasvæði stórvelda og innrásin sem ráðherrann gleymdi

Svo er getið um innrásirnar í Ungverjaland 1956 og Tékkóslóvakíu 1968. Þorgerður Katrín vísaði til sögunnar þegar ráðamenn skiptu Evrópu með reglustiku. Reglustikan var reyndar frekar notuð við að skipta nýlendum í öðrum heimsálfum, en hér var vissulega dregin lína. Og það voru vissulega ástæður að því fyrir því að hún var dregin. „Það hefur ekkert ríki ráðist inn í Rússland“, sagði Þorgerður Katrín í Silfrinu 8. desember. Hún gleymdi bara þessari litlu innrás Þýskalands í Sovétríkin 22. júní 1941. Sem varð um 25 milljón manns eða meira að aldurtila í Sovétríkjunum áður en yfir lauk nærri fjórum árum seinna. Það skipti Sovétríkin kannski svolitlu máli að fá sitt áhrifasvæði austan þessarar línu sem kölluð var járntjaldið. Og verja það. Hvað sem okkur finnst nú um þær aðfarir og umræddar innrásir, þá voru Sovétríkin bara að gera það sem stórveldi hafa löngum gert, verja sitt áhrifasvæði og ítök sín þar.

Rétt um svipað leyti og Sovétríkin réðust inn í Ungverjaland réðust Bretland og Frakkland inn í Egyptaland til tryggja yfirráð sín yfir Súez-skurðinum. Og þá höfðu Frakkar verið í tvö ár í stríði við frelsishreyfingu Alsír sem hófst rétt eftir að þeir töpuðu stríði sínu í Indó-Kína en ári eftir það hófust afskipti Bandaríkjanna þar sem áttu svo eftir að þróast í fullt stríð, Víetnamstríðið, í tíu ár, 1965 til 1975, – það stóð sem hæst þegar Rússar réðust inn í Tékkóslóvakíu. Rétt eins og ráðamenn í Moskvu óttuðust að öfl þeim óvilhöll næðu yfirráðum í Ungverjalandi og Tékkóslóvakíu óttuðust ráðamenn í Washington sömu þróun í Víetnam. Munurinn var bara sá að milli landamæra Bandaríkjanna og Víetnam var talsvert lengra en milli landamæra Sovétríkjanna og Ungverjalands.

Frá Mansjúríu árið 1900 til Úkraínu árið 2022

Það er óþarfi að fara að telja upp til mótvægis við innrásir Rússlands fullt af dæmum um innrásir Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja víða um heim. Þess má geta að þegar Rússar réðust inn í þessi 19 lönd voru þau öll að þrem undanskildum á áhrifasvæði Rússlands eða styrjaldarsvæði heimsstyrjaldanna tveggja sem Rússar tóku þátt í. Þessar þrjár undantekningar eru innrás í Mansjúríu árið 1900, Xinjiang í Kína til aðstoðar byltingarmönnum þar 1934 og loks innrásin í Afganistan 1979 til 1989.

Eftir að Sovétríkin liðu undir lok sendi Rússland herlið inn í tvö lönd sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum, Tsjésténíu 1994 og 1999 og Georgíu 2008, áður en ófriðurinn í Úkraínu hófst árið 2014 og allsherjarinnrásin síðan 2022. Þá má kannski nefna að á því tímabili réðust Bandaríkin inn í Írak og Afganistan og NATO inn í Júgóslavíu og Líbíu.

Það er sama hvaða skoðun maður hefur á þeim hernaði Rússlands sem hér hefur verið farið yfir, þessum innrásum í 19 lönd undanfarin 125 ár, hvort manni þykir þar eitthvað réttlætanlegt eða allt fordæmanlegt, þá er eitt víst: Með tilliti til samhengisins verður þetta alls ekki notað sem rök fyrir að einhver ógn stafi af Rússlandi hér og nú. Þessi innrásarsaga undanfarinna 125 ára, fyrst Rússneska keisaradæmisins, svo Sovétríkjanna og loks Rússneska sambandsríkisins, er ekki nokkurs virði til að meta hugsanlega ógn af hálfu Rússlands núna.

En innrásir í 19 lönd nýtast auðvitað vel í ótta- og ógnarstjórnun þegar þarf að koma í veg fyrir rökréttar ákvarðanir. Og þá sérstaklega ef því er bætt við að aldrei hafi verið ráðast inn í Rússland.

Sennilega er innrásin mikla 1941 fæstum í huga nema elstu mönnum, hvað þá allar innrásirnar á árunum eftir fyrri heimsstyrjöld. Það er hægt að möndla með söguna eftir hentugleikum þegar fæstir eru með hana á hreinu: „það hefur ekkert ríki ráðist inn í Rússland, Rússland hefur hins vegar ráðist inn í 19 ríki.“

Höfundur er fyrrverandi bókavörður og sagnfræðingur að mennt sem hefur fylgst með alþjóðamálum á hálfa öld.




Skoðun

Sjá meira


×