Handbolti

Segir starfið í húfi hjá Al­freð

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason er með samning sem gildir út HM í Þýskalandi 2027.
Alfreð Gíslason er með samning sem gildir út HM í Þýskalandi 2027. Getty/Alexander Hassenstein

Andreas Michelmann, formaður þýska handknattleikssambandsins, segir stöðu Alfreðs Gíslasonar sem landsliðsþjálfara ekki örugga þó að hann sé með samning sem gildi fram yfir HM í Þýskalandi 2027.

Alfreð fær brátt þýska landsliðshópinn í sínar öruggu hendur til lokaundirbúnings fyrir Evrópumótið í janúar. Frammistaðan þar mun skera úr um framhaldið og þó að Alfreð hafi með mögnuðum hætti tekist að skila Þjóðverjum Ólympíusilfri í fyrra, eftir að hafa framlengt samning sinn fyrir Ólympíuleikana, vill Michelman líka sjá árangur á EM.

Alfreð hefur stýrt þýska landsliðinu frá árinu 2020 en ef illa fer á EM gæti það orðið síðasta stórmót liðsins undir hans stjórn.

„Það er á hreinu að við myndum íhuga það ef að liðið – sem ég býst ekki við – stendur sig langt undir væntingum á EM,“ sagði Michelmann við þýsku fréttaveituna DPA.

„Eftir hvert einasta stórmót, bæði kvenna og karla, þurfa þjálfararnir að gefa handknattleikssambandinu skýrslu. Við tökum svo viðeigandi ákvarðanir út frá þeirri greiningu og úrslitum,“ sagði Michelmann.

Allt í boði nema efsta sætið

Þýskaland endaði í 6. sæti á HM fyrir tæpu ári síðan, eftir tap í framlengdum leik gegn Portúgal í 8-liða úrslitum, og á fyrir höndum afar erfiða leið á toppinn á EM.

Þýskaland spilar sína leiki í Herning í Danmörku og er í riðli með Spáni, Austurríki og Serbíu. Ef liðið kemst áfram leikur það í milliriðli með heims- og Ólympíumeisturum Danmerkur, Evrópumeisturum Frakklands, Portúgal sem varð í 4. sæti á síðasta HM, og Noregi.

„Samkvæmt minni reynslu þá eigum við vanalega gott mót þegar við erum í sterkum riðli,“ sagði Michelmann sem gerir sér hins vegar ekki vonir um gullverðlaun:

„Danmörk er yfirburðalið og auk þess á heimavelli. En það er allt opið frá öðru sæti og niður,“ sagði Michelmann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×