Erlent

Þrír létust í ó­veðrinu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Stormurinn Jóhannes reið yfir Svíþjóð.
Stormurinn Jóhannes reið yfir Svíþjóð. AP

Þrír eru látnir eftir að stormurinn Jóhannes reið yfir Svíþjóð í gær. Þúsundir eru án rafmagns og samgöngutruflanir eru víða.

Einn maður fannst látinn undir tré í Sandviken, annar varð undir tré og lést í Harnosand og sá þriðji varð einnig fyrir tré á meðan hann starfaði í skógi í Hofors samkvæmt umfjöllun Aftonbladet.

Það hefur að mestu lægt í Svíþjóð og appelsínugular veðurviðvaranir hafa verið felldar úr gildi. Sænska samgöngustofnunin segist vera vonsvikin þar sem margir hafi ekki tekið tillit til veðurviðvaranna. Enn sé hættulegt að vera á ferli og kalla þeir eftir að fólk haldi sig heima við í dag.

Umfangsmiklar samgöngutruflanir eru víða í norðurhluta Svíþjóðar. Unnið er að því að hreinsa vegina og lestarteina. 

„Þetta er aðeins farið að skána á vegunum en það eru mörg tré sem féllu og þarf að sjá um þau. Það er erfitt að fá góða yfirsýn áður en það birtir,“ segir Elin Sarfati, fjölmiðlafulltrúi sænsku samgöngustofnunarinnar.

Andreas Carlson, innviðaráðherra, hefur einnig tekið undir áhyggjur stofnunarinnar og segir það grafalvarlegt hversu margir voru á ferli á meðan veðurviðvaranirnar voru í gildi.


Tengdar fréttir

Einn látinn í óveðrinu í Svíþjóð

Einn er látinn vegna mikils óveðurs sem geisar nú um Svíþjóð og Noreg. Maðurinn mun hafa verið við skíðasvæðið í Kungsberget, nálægt sænska bænum Sandviken.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×