Erlent

Milljón dalir eða meira fyrir náðun

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Alex Brandon

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur að undanförnu verið iðinn við að náða menn og fyrirtæki. Í einhverjum tilfellum hefur það gerst svo hratt að Trump hefur komið eigin starfsfólki á óvart og hefur forsetinn verið sakaður um spillingu vegna sumra náðanna.

Sérstaklega hefur verið vísað til þess þegar Trump náðaði óvænt Changpeng Zhao, rafmyntaauðjöfur sem Trump sagðist í kjölfarið ekki hafa hugmynd um hver væri. Zhao og fyrirtæki hans hafa hjálpað fjölskyldu Trumps að hagnast verulega á rafmyntabraski.

Sjá einnig: Segist engin deili kunna á rafmyntajöfri sem hann náðaði

Auðugir og vel tengdir menn eru sagðir hafa fundið leið framhjá hinu hefðbundna náðunarferli, með því að beita auðæfum sínum og tengslum til að hafa áhrif á forsetann.

Hefur náðað fjölda fólks

Lobbíistar sem hafa aðgang að forsetanum og fjölskyldu hans segja auðuga menn í leit að náðun borga fúlgur fjár fyrir það að mál þeirra séu rædd við Trump. Meðalverðið sé um milljón dalir en í einhverjum tilfellum hafi þessir málafylgjumenn fengið boð um sex milljón dala greiðslu, takist þeim að sannfæra Trump um að skrifa undir náðun tiltekinna manna.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í frétt Wall Street Journal, þar sem rætt var við málafylgjumenn og starfsmenn Hvíta hússins um náðanir Trumps og tilraunir til að sannfæra hann um að náða tiltekna menn.

Á tveimur fyrstu árum fyrra kjörtímabils síns náðaði Trump einn og felldi niður dóm annars. Á síðasta degi kjörtímabilsins náðaði hann svo nærri því 150 manns.

Trump náðaði eða felldi niður mál gegn rúmlega fimmtán hundrað manns á sínum fyrsta degi í þessu kjörtímabili. Átti það við alla þá sem höfðu verið dæmdir eða ákærðir vegna árásarinnar á þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar 2021. Þá ruddu stuðningsmenn Trumps sér leið inn í þinghús Bandaríkjanna til að reyna að koma í veg fyrir formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna 2020, sem Trump tapaði fyrir Joe Biden.

Síðan þá hefur Trupm náðað 87 menn og fyrirtæki.

Í frétt WSJ segir að þessi fjöldi náðana byggi að miklu leyti á reynslu Trumps af réttarkerfinu, sem hann telur að hafi verið beitt gegn sér af pólitískum ástæðum.

Buðu fimm milljónir fyrir náðun

Í tilfelli Changpeng Zhao segir WSJ frá því þegar Trump veitti Charlie Kirk, áhrifavaldi sem var myrtur fyrr á árinu, heiðursorðu í október. Eftir þá athöfn sást á upptökum að Trump yngri, sonur forsetans, leiddi mann til föður síns. Sá heitir Ches McDowell og er málafylgjumaður sem starfaði þá fyrir Zhao.

Trump og McDowell tókust í hendur en viku síðar skrifaði Trump undir náðun Zhao.

Bæði Demókratar og Repúblikanar hafa gagnrýnt náðunina og í flestum tilfellum með því að vísa til fjárhagslegra tengsla Zhao og fjölskyldu Trumps.

Zhao játaði sig sekan um að hafa ekkert aðhafst gegn peningaþvætti gegnum rafmyntafyrirtæki hans sem heitir Binance. Saksóknarar héldu því fram að Binance hefði sleppt því að tilkynna um færslur sem tengdust hryðjuverkasamtökum eins og Hamas, al-Qaeda og Ríki íslams og ýmiss konar glæpastarfsemi, þar á meðal barnaníði og tölvuinnbrotum.

Binance hafði á þessum tíma greitt málafylgjumönnum um átta hundruð þúsund dali, fyrir það að reyna að vekja athygli Trumps á máli Zhao og fá hann til að samþykkja að náða rafmyntajöfurinn.

WSJ segir að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi boðið allt að fimm milljónir dala í greiðslur til þess sem tækist að fá Zhao náðaðan.

Kom eigin fólki á óvart

Trump náðaði einnig Juan Orlando Hernández, fyrrverandi forseta Hondúras, sem var dæmdur í fyrra fyrir aðkomu að því að smygla hundruðum tonna af kókaíni frá Suður-Ameríku til Bandaríkjanna.

Þá náðaði hann einnig Henry Cuellar, þingmann Demókrataflokksins í Texas, sem hafði verið ákærður fyrir að taka við hundruð þúsunda dala í mútugreiðslur, svo eitthvað sé nefnt.

Trump er sagður hafa vonast til þess að Cuellar myndi ganga til liðs við Repúblikanaflokkinn, sem hefur ekki gerst enn.

Sjá einnig: Trump hundfúll að fá ekki greiða gegn greiða

Þegar Trump náðaði Hernández gerði hann það án þess að hans helstu ráðgjafar og aðstoðarmenn vissu af því. Sjálfur hefur forsetinn gefið til kynna að hann hafi ekki verið miklum tíma í að kynna sér mál fyrrverandi kollega síns. Hann sagði að „mjög gott fólk“ hefði rætt mál Hernández við sig.

„Ég veit mjög lítið um hann,“ sagði Trump um Hernández í viðtali.

„Þeir telja að komið hafi verið hræðilega fram við hann og báðu mig um að gera þetta.“

Tvær leiðir að náðun

Tvær mismunandi leiðir til náðunar virðast hafa skapast í Hvíta húsinu. Önnur er sú sem þykir hefðbundin en hún felur í sér umsóknarferli sem fer í gegnum lögmenn dómsmálaráðuneytisins og Hvíta hússins. Þeir leggja svo fram tillögur til Trumps.

Hin leiðin er samkvæmt WSJ áhættusamri en getur borið árangur mjög hratt. Hún felur í sér að greiða málafylgjumönnum fyrir að reyna að ná til Trumps. Takist þeim að hitta á hann í Mar-a-Lago, heimili og sveitaklúbbi forsetans í Flórída, eða í Hvíta húsinu, er hann sagður mjög tilkippilegur.

Sérstaklega ef notuð eru orð sem falla í kramið hjá Trump og sérstaklega ef því er haldið fram að viðkomandi menn sem sækjast eftir náðun hafi verið beittir órétti af réttarkerfinu. Trump telur að hann hafi sjálfur verið beittur miklu óréttlæti og hefur hann í nokkrum tilfellum sagt að mennirnir sem hann hefur náðað hafi verið beittir „nornaveiðum“, sem er það sama og hann hefur ítrekað sagt um sjálfan sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×