Innlent

Komu auga á strandaða ferða­menn við Heklu

Agnar Már Másson skrifar
Jeppi ferðamannanna sést hér í gegnum sjónauka flugvélarinnar.
Jeppi ferðamannanna sést hér í gegnum sjónauka flugvélarinnar. Landhelgisgæslan

Áhöfn um borð í björgunarflugvélinni Tf-Sif var fengin til þess að skima eftir ferðamönnum nálægt Heklu í gærkvöldi. Ferðamennirnir fundust fljótt þrátt fyrir mikið myrkur.

Landhelgisgæslan greindi frá því á Facebook í dag að áhöfn flugvélarinnar TF-Sif hefði sinnt hefðbundnu eftirlits- og æfingarflugi á hafsvæðinu fyrir norðan og vestan land. Vélin hafi síðan lent að því loknu á Akureyrarflugvelli. 

„Þegar hún var nýtekin á loft þaðan, á leið til Reykjavíkur, bárust upplýsingar um að leit væri að hefjast norður af Heklu vegna ferðamanna í jeppabifreið sem væru í vanda,“ skrifar gæslan. 

Ákveðið hafi verið að flugvélinni yrði flogið yfir svæðið til að koma auga á bílinn. Eftir stutta leit hafi áhöfnin á Tf-Sif fundið jeppann og blikkað lendingarljósum í átt að fólkinu, sem hafi getað blikkað til baka með ljósum bílsins.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sendi þá björgunarsveitarfólki Landsbjargar nákvæma staðsetningu bílsins og komu björgunarsveitarmenn fólkinu til bjargar sem kom fólkinu til aðstoðar í kjölfarið. 

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi gæslunnar, segir að útkallið hafi borist á sjötta tímanum í gær. Það hafi tekið innan við þrjátíu mínútur að finna bílinn. Leitin hafi því gengið vel þrátt fyrir niðamyrkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×