Skoðun

Hvar eiga krakkarnir að vera á nýju ári?

Davíð Már Sigurðsson skrifar

Börnum og ungmennum er þröngur stakkur búinn um þessar mundir. Kvíði, ofbeldi og vanlíðan þeirra fær mikið vægi í fjölmiðlum. Tekist er á um síma- og samfélagsmiðlabönn. Að mínu mati er það þó ekki rót vandanns þó ég telji notkun snjalltækja og samfélagsmiðla tæplega börnum til batnaðar.

Það þarf að búa þeim staði til að athafna sig, leika saman og reka sig á. Að geta tekið áhættur og lært á umhverfi sitt. Að fara út að leika án afskipta

Samt hefur statt og stöðugt verið höggvið að möguleikum barna og ungmenna til þess að vera börn í friði.

Sundlaugunum er lokað fyrr í mörgum bæjarfélögum, bæði um helgar og á virkum dögum. Það kostar liggur við jafn mikið að halda þessu opnu hvort sem þú lokar 18 eða 22. Vatnið má ekki kólna svo eina sem umfram er smotterí í launakostnað. Þetta er sennilega eini staðurinn þar sem börn og ungmenni eru frjáls undan oki snjalltækja og samfélagsmiðla. Það eru verðmæti.

Það er ítrekar saxað af grænum svæðum þar sem hægt er að leika sér, og ef einhver er með smá hávaða í boltaleik á þar til gerðu svæði á fólk það til að ærast og kvarta bæði í fjölmiðla og hið opinbera.

Svo koma jafnvel einhverjir Viðreisnarmenn sem telja að það eina rétta í stöðunni að stytta sumarfrí, svo það sé ALLTAF rútína. Frábær hugmynd, eða hitt þó heldur. Í gamla daga fór maður út að leika sér, elskaði sumarfríið og vildi hafa það sem lengst.

Ekki má gleyma því að til eru heil sveitarfélög sem vilja hlusta á börn. Bara ekki þegar þau vilja bjóða í afmæli. Þá má það bara alls ekki. Svipað og ráðamenn sem flissa þegar börn biðja um skiljanlegar einkunnir en innleiða svo frumvarp sem dregur úr möguleikum þeirra sem leggja hart að sér í námi.

Vonandi verður komandi ár börnum betra því þau þurfa svo sannarlega eitthvað annað heldur en gengdarlaus afskipti okkar fullorðna fólksins

Höfundur er kennari.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×