Skoðun

Þú þarft lík­lega ekki að taka símann og hleðslu­tækið úr svefn­her­berginu

Ásdís Bergþórsdóttir skrifar

Á nýju ári birtist á Vísi greinin: „Er áramótaheitið árið 2026 betri skjávenjur?“ þar sem talað er um að gera svefnherbergið skjálaust. Í þeim stutta kafla er sumt verulega undarlegt út frá núverandi þekkingu. Þar kemur fram ráðleggingin að taka fram öll hleðslutæki út úr svefnherberginu af því að snjallsímar hafi slæm áhrif á svefninn. En hleðslutæki er ekki skjátæki. Það er enginn rökstuðningur eða útskýring á því af hverju hleðslutæki megi ekki vera í svefnherberginu.

Svo er fullyrt að snjallsímar hafi slæm áhrif á svefn. Vissulega sofnar fólk ekki á meðan það er virkt í snjallsímanum. Ekki frekar en fólk sofni við annað virkt athæfi - prófaðu hreyfa höndina stanslaust uppi í rúmi og sjáðu hvernig þér gengur að sofna. Þannig er það ekki síminn sem veldur vandanum heldur það að við erum ekki að reyna að róa okkur og fara að sofa. Ef þér finnst þú þurfa að skrolla áfram og áfram áður en þú ferð að sofa þá getur verið ágætt að hafa símann ekki nálægt sér. Vandinn er samt ekki síminn, heldur þú og þín hegðun.

Ef þú ert að nota símann á nóttunni þá er eðlilegt að setja hann fram. Það getur verið að þú farir að vakna til að nota símann. Ef þú ert ekkert að nota hann á nóttunni og sefur þokkalega þá skiptir engu máli hvort þú sefur í gegnum nóttina með hann við hliðina á þér.

En hvað með bláa ljósið? Á það ekki að hafa svo slæm áhrif á svefn? Það er vissulega kenning sem var sett fram en staðan núna á vísindalegri þekkingu er sú að National Sleep Foundation treystir sér ekki til að fullyrða að blátt ljós hafi slæm áhrif á svefn, hvorki hjá börnum, unglingum né fullorðnum. National Sleep Foundation er félagsskapurinn á bak við ráðleggingar um ráðlagðan svefntíma sem allir heilbrigðisaðilar vísa í. Það er einfaldlega ekki vitað hvort að blátt ljós seinki svefni. Það er fullt af íslenskum sérfræðingum sem fullyrða samt að blátt ljós seinki svefni en það þýðir bara að þeir eru ekki að fylgjast með rannsóknum.

National Sleep Foundation treystir heldur ekki til að fullyrða að skjánotkun hafi áhrif á svefn fullorðinna. Fullyrðingin í greininni: „Það er löngu vitað að snjallsímar hafa slæm áhrif á svefninn okkar – bæði á gæði hans og lengd“ stenst einfaldlega ekki. Þetta er ekki vitað, því síður löngu vitað.

Af einhverri undarlegri ástæðu er sagt í greininni: „Ef þið viljið ganga skrefinu lengra má líka íhuga að taka tölvur og sjónvörp út úr svefnherbergjum“. Ég skil ekki alveg hvernig er hægt að gera herbergi skjálaus en hafa tölvur og sjónvörp inni í þeim en það er margt í lífinu sem ég skil ekki. Ef þú ætlar að gera svefnherbergi skjálaust þarf að taka öll skjátæki úr þeim, líka hitamæla með skjá, blóðþrýstingsmæla með skjá og svo framvegis.

Af hverju er það skaðlegt að hafa tölvur og sjónvörp í svefnherbergjum? Því er auðsvarað. Það er almenn ráðlegging sérfræðinga að svefnherbergi eigi einvörðungu að vera fyrir svefn og kynlíf. Það er til þess að heillinn pari svefnherbergið aðeins saman við svefn. Það er því ekki ráðlagt að hafa nein tæki sem þarf að vinna við eða nota eins og tölvur og sjónvörp eða prjónavélar. Þetta er ekki nein aukaráðlegging. Þetta er ein af aðalráðleggingum um svefn. Ekki gera neitt annað í svefnherberginu en að sofa og stunda kynlíf. Út með allt annað en tölvunotkun, sjónvarpsáhorf, prjónaskap, taflmennsku o.s.frv.

Þú þarft ekki taka símann og hleðslutækið úr svefnherberginu ef þú ert bara að nota hann sem vekjaraklukku. Ef þú sefur þokkalega þá eru engin vandamál og engu þarf að breyta. Það þarf ekkert

áramótaheit. Það er hins vegar skynsamlegt að nota bara svefnherbergið undir svefn og kynlíf. Þannig að ef það er möguleiki að hafa sjónvarpið og tölvuna annars staðar þá er það betra.

Um hver áramót kemur fram fullt af fólki sem er að selja okkur hugmyndir um betra líf, meiri vellíðan og meira jafnvægi. Það er eins og lífið eigi að vera kapphlaup eftir jafnvægi og vellíðan en það er ekki hægt að vera í vellíðan og vera í kapphlaupi eftir vellíðan á sama tíma. Sefurðu þokkalega? Þá þarftu ekki breyta neinu í svefnherberginu. Við sofum öll illa stundum en á meðan það er enginn vandi þá þarf ekkert að gera. Ekki kokgleypa áróðurinn um að þú þurfir að lifa öðru lífi en þú lifir. Ef maður er sáttur við líf sitt þá þarf engu að breyta.

Heimildir

Hartstein, L. E., Mathew, G. M., Reichenberger, D. A., Rodriguez, I., Allen, N., Chang, A. M., ... & Hale, L. (2024). The impact of screen use on sleep health across the lifespan: A National Sleep Foundation consensus statement. Sleep Health, 10(4), 373-384.

Höfundur er sálfræðingur




Skoðun

Skoðun

Hin­segin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×