Erlent

Rodríguez réttir Banda­ríkjunum sáttar­hönd

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rodríguez og aðrir ráðamenn í Venesúela virðast hafa komist að þeirri niðurstöðu að best sé að freista þess að friðþægja Bandaríkjastjórn.
Rodríguez og aðrir ráðamenn í Venesúela virðast hafa komist að þeirri niðurstöðu að best sé að freista þess að friðþægja Bandaríkjastjórn. Getty/Carlos Becerra

Delcy Rodríguez, varaforseti Venesúela og sitjandi forseti í fjarveru Nicolás Maduro, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hún virðist rétta fram sáttarhönd til stjórnvalda í Bandaríkjunum. 

Rodríguez ítrekaði að Venesúela væri sjálfráða land, sem vildi vera án utanaðkomandi ógnar, en sagði jafnframt að þarlend stjórnvöld væru reiðubúin til að vinna með Bandaríkjunum að sameiginlegri framþróun. Það þyrfti þó að gerast innan ramma alþjóðalaga.

Lítið virðist vitað um stöðu mála í Venesúela eftir að Bandaríkjamenn réðust inn og handtóku Maduro og fluttu til Bandaríkjanna. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað að Bandaríkjamenn séu við stjórnvölinn í Venesúela en sú stjórn virðist felast í einhvers konar samtali milli Bandaríkjastjórnar og ráðamanna í landinu.

Rodríguez var herská á laugardag og sakaði Bandaríkjamenn um hreina og beina innrás í landið, þrátt fyrir að Trump hefði skömmu áður greint frá því að utanríkisráðherrann Marco Rubio hefði átt í samskiptum við Rodríguez og að hún hefði samþykkt að vinna með Bandaríkjamönnum.

Eftir ummæli Rodríguez hótaði Trump hins vegar að hún myndi hafa verra af ef hún sýndi ekki samstarfsvilja og virðist Rodríguez hafa mildast í afstöðu sinni eftir það. Þá vekur athygli að í yfirlýsingu sinni í gær ítrekaði varaforsetinn ekki áköll sín eftir því að Maduro yrði látinn laus.

„Þjóð okkar og land verðskulda frið og samtal, ekki stríð. Það hefur ávallt verið afstaða Nicolás Maduro forseta og það er afstaða allra Venesúelabúa. Það er það Venesúela sem ég trúi á, það Venesúela sem ég hef tileinkað líf mitt. Draumur minn er að Venesúela sé mikið veldi, þar sem allir góðir Venesúelabúar geti komið saman,“ sagði varaforsetinn í yfirlýsingu sinni.

New York Times greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×