Skoðun

Allt hefur sinn tíma

Hilmar Kristinsson skrifar

Ég las greinina „Allt hefur sinn tíma“ og skildi strax hvers vegna hún hefur fengið góðar undirtektir. Hún er vel skrifuð, yfirveguð og snertir raunverulega tilfinningu sem margir þekkja: að við lifum á tímamótum, þar sem gamlar stoðir bresta og enginn vill flýta sér að dæma það sem er að breytast.

Svona greinar róa. Þær gefa tilfinningu fyrir dýpt, þroska og skynsemi. Þær segja í raun: „Andaðu rólega. Þetta er hluti af stærra ferli.“ Og oft er eitthvað rétt í því. Og ég efast ekki um að greinin sé skrifuð í góðri trú.

Setningin „allt hefur sinn tíma“ fangar þessa tilfinningu vel. Hún hljómar vitræn, næstum óumdeilanleg — eins og hún sé sjálf niðurstaðan sem við höfum verið að leita að.

Og einmitt þar verður hún varasöm.

Því í íslenskum veruleika eigum við eldri útgáfu af sömu hugsun. Hún er styttri, jarðbundnari og miklu heiðarlegri: „Þetta reddast.“

Setningin er ekki endilega röng. En hún er oft notuð til að fresta afstöðu. Til að láta tímann vinna verkið sem við sjálf treystum okkur ekki til að vinna. Hún er leið til að segja: „Við skulum ekki taka þessa spurningu núna.“

Og þegar við viljum láta þetta hljóma dýpra og vitrænna, þá segjum við: „Allt hefur sinn tíma.“

Það sem margir átta sig ekki á er að þessi setning kemur ekki úr samtímanum, ekki úr sálfræði og ekki úr samfélagsmiðlum. Hún kemur úr Biblíunni, úr Prédikaranum:

„Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma.“ (Préd 3:1)

Og hún er sönn.

En hún er sönn á tvennan hátt. Annars vegar sem menningarleg hugleiðing sem allir geta samþykkt. Hins vegar — í upprunalegu samhengi sínu — sem setning sem dregur manninn frammi fyrir Guð.

Það er munurinn sem gleymist.

Prédikarinn gerir það sem fáar bækur þora… hann lýsir lífinu eins og það er undir sólinni — vinnu, streitu, hringrásum, gleði, sorg og því að kynslóðir koma og fara. Hann leyfir manni að segja: „Já. Þetta er einmitt svona.“

En hann stoppar ekki þar.

Hann leyfir setningunni „allt hefur sinn tíma“ ekki að verða svefnlyf. Hann notar hana ekki til að slétta úr árekstrum, heldur til að afhjúpa þá. Því tíminn er ekki lausn. Tíminn er rammi. Og rammi endar alltaf í spurningu sem „þetta reddast“ vill helst forðast:

Hvað bindur — hvaða akkeri heldur þegar tíminn hættir að vinna með okkur?

Við tölum gjarnan um gildi. Mannúð og mildnina. Að vera „opinn“. Það hljómar fallega, og getur jafnvel verið satt. En gildi sem standa aðeins vegna samhljóms tímans verða annað hvort smekksatriði eða valdaspurning. Þegar allir eru sammála er auðvelt að vera góð manneskja. En þegar stormurinn kemur, þá kemur í ljós hvort það var sannleikur — eða bara stemning.

Þess vegna endar Prédikarinn ekki í ljóðum. Hann endar í niðurstöðu sem nútíminn vill helst sleppa… óttastu Guð.

Og síðan í setningu sem engin menningarleg greining fær að mýkja: Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm.

Hún er ekki óvinsæl vegna þess að hún er óljós. Hún er óvinsæl vegna þess að hún er of skýr.

Og hér tengist þessi umræða því sem Jesús sagði — ekki sem trúarlegt skraut, heldur sem rök sem sprengja nytjahyggjuna.

Í dæmisögunni um dýrmætu perluna spyr kaupmaðurinn ekki hvort perlan sé nytsamleg, samfélagslega heilnæm eða hjálpleg í umbreytingaskeiði. Hann spyr einfaldlega hvort hún sé þess virði. Og þegar hann sér svarið, selur hann allt.

Þarna skiljast leiðir.

Það sem er gott af því það virkar, bindur aðeins meðan það virkar. Það sem er dýrmætt af því það kostar allt, bindur jafnvel þegar það fer gegn tímanum.

Þess vegna verður „allt hefur sinn tíma“ að hættulegri setningu þegar hún er notuð sem lokaorð. Þá er hún ekki lengur viska, heldur háfleyg útgáfa af „þetta reddast“ — fallegt orðalag sem frestar uppgjöri í stað þess að svara því.

Ritningin talar ekki þannig. Hún segir ekki að við séum einfaldlega hluti af fallegri menningarlegri sögu. Hún segir: Þið eruð keypt dýru verði.

Og þar hrynur allt sem vill hafa siðferði án kaupverðs.

Allt hefur sinn tíma.

En sannleikurinn er ekki árstíð.

Og perlan er ekki skraut.

Hún er keypt.

Og verðið var ekki „þetta reddast“.

Verðið var kross.

Höfundur er guðfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×