Erlent

„Stórt fram­fara­skref“

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Vólódimír Selenskí  Úkraínuforseti og Emmanuel Macron Frakklandsforseti.
Vólódimír Selenskí  Úkraínuforseti og Emmanuel Macron Frakklandsforseti. EPA

Forsetar Úkraínu og Frakklands og forsætisráðherra Breta undirrituðu í kvöld samkomulag um varnir Úkraínu. Með undirrituninni samþykkja Bretar og Frakkar að senda hermenn til Úkraínu í kjölfar samkomulags um vopnahlé.

Í dag funduðu leiðtogar yfir tuttugu ríkja sem styðja Úkraínu, þar á meðal fulltrúar Þýskalands, Frakklands, Íslands og Bandaríkjanna.

Að fundinum loknum undirrituðu Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti, Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, samning um öryggistryggingar fyrir Úkraínu þegar vopnahlé er í höfn á milli þeirra og Rússa.

„Í kjölfar vopnahlés mun Bretland og Frakkland koma á fót herstöðvum í Úkraínu,“ sagði Starmer samkvæmt The Guardian. 

Macron lagði áherslu á að markmið samningsins væri að veita Úkraínu ákveðna öryggistryggingu að stríði loknu. Herstöðvarnar yrðu fjarri fremstu víglínunni en hann gaf ekki upp hver stór hópur hermanna yrði sendur til Úkraínu. Samkvæmt BBC sagði Selenskí að samningurinn væri „stórt framfaraskref“.

Fjölskyldumynd fundarins.EPA

„Fyrir einu ári gátum við ekki einu sinni hugsað um þetta og núna höfum við tekið þetta skref,“ sagði Selenskí.

Steve Witkoffs, sérstakur erindreki Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Jared Kushner, tengdasonur Trumps, voru fulltrúar Bandaríkjanna á fundinum. Aðspurður hvort Bandaríkin myndu koma til aðstoðar ef evrópskar hersveitir yrðu fyrir árás sagði Witkoff öryggistrygginguna vera „jafn sterka og nokkru sinni hefur sést“. Hersveitirnar myndu ná bæði að koma í veg fyrir að Úkraína yrði fyrir árásum og verjast árásum.

„Þetta þýðir ekki að það verði friður, en friður verður ekki mögulegur án framfaranna sem náðust hér í dag,“ sagði Kushner.

Í yfirlýsingu leiðtoganna að loknum fundi segir að Bandaríkin hafi staðfest að þau muni gegn lykilhlutverki hvað varðar framtíðaröryggi Úkraínu. Meðal öryggistrygginganna er vopnahléseftirlit leitt af Bandaríkjunum, stuðningur við Úkraínuher og þegar vopnahlé er í höfn er gert ráð fyrir fjölþjóðlegum liðsafla til stuðnings endurreisn úkraínska heraflans.

Settur verður á laggirnar samhæfingarstöð í höfuðstöðvum aðgerðastjórnar ríkjahópsins í París.

Mikilvægur áfangi

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra var fulltrúi Íslands á fundinum. Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að yfirlýsing fundarins marki mikilvægan áfanga í mótun þeirra öryggisskuldbindinga sem Evrópuríki og Bandaríkin hyggjast veita Úkraínu.

„Þær ákvarðanir sem teknar voru í dag marka mikilvæg tímamót. Þær sýna svo ekki verður um villst að Evrópa er reiðubúin að leggja sitt af mörkum til friðarumleitana og að friður í Úkraínu, og álfunni allri, verði tryggður til frambúðar,“ er haft eftir forsætisráðherranum.

Kristrún Frostadóttir og Emmanuel Macron.EPA

Stuðningur Íslands byggist bæði á þingsályktun Alþingis frá 29. apríl 2024 og tvíhliða samningi Íslands við Úkraínu um öryggissamstarf og langtímastuðning frá 31. maí 2024.

„Ísland er herlaus þjóð en við búum hins vegar að því að fjöldi Íslendinga hefur veigamikla þekkingu og reynslu af fjölþjóðaverkefnum á borð við þær aðgerðir sem hér hefur verið rætt um. Með slíku borgaralegu framlagi geta íslensk stjórnvöld lagt sitt af mörkum til þeirra öryggisskuldbindinga sem samstaða hefur náðst um og haldið þannig áfram að efla getu okkar á þessu sviði,” segir Kristrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×