Erlent

Tak­marka mynda­fram­leiðslu Grok í skugga gagn­rýni

Kjartan Kjartansson skrifar
Elon Musk, eigandi X og Grok, hefur á skömmum tíma breytt samfélagsmiðlinum í stærsta vettvanginn fyrir kynferðislegt efni af börnum á netinu.
Elon Musk, eigandi X og Grok, hefur á skömmum tíma breytt samfélagsmiðlinum í stærsta vettvanginn fyrir kynferðislegt efni af börnum á netinu. Vísir/EPA

Aðeins áskrifendur að samfélagsmiðlinum X eiga nú að geta beðið spjallmennið Grok um að skapa fyrir sig myndir. Breytingin er gerð í skugga harðrar gagnrýni og hótana um sektir vegna þess að Grok hefur framleitt ógrynni kynferðislegra mynda af konum og börnum á undanförnum dögum.

Notendur X hafa notað gervigreindarforritið Grok til þess að breyta myndum af konum, þar á meðal að fjarlægja föt þeirra og setja þær í kynferðislegar stellingar. Spjallmennið hefur ekki sett það fyrir sig þótt að myndirnar séu af börnum.

Yfirvöld í nokkrum löndum rannsaka nú myndaframleiðsluna, þar á meðal í Bretlandi og Frakklandi. Forstjóri Persónuverndar á Íslandi sagði Vísi í gær að engar kvartanir hefðu borist henni um kynferðislegar myndir Grok af íslenskum konum.

Elon Musk, eigandi X og Grok, og X brugðust upphaflega við gagnrýninni með því að hvetja notendur til þess að misnota ekki Grok í stað þess að koma í veg fyrir að hægt væri að nota forritið til að framleiðsla myndir af þessu tagi. Fyrirtækið hefur ekki svarað neinum fyrirspurnum fjölmiðla um málið.

Meirihluti ætti ekki að geta látið Grok gera myndir

Eftir að tilkynnt var á X-síðu Grok að aðeins áskrifendur að samfélagsmiðlinum gætu notað myndaframleiðslu hans tímabundið getur mikill meirihluti notenda ekki lengur notfært sér hana, að sögn breska blaðsins The Guardian. Ekki er þó ljóst hvort áskrifendur geti enn búið til kynferðislegar myndir af konum gegn vilja þeirra.

X hefur upplýsingar um áskrifendur sem nota þjónustuna og ætti því í kenningunni að geta haft eftirlit með þeim sem misnota hana.

Á meðal þess sem notendur X hafa gert með Grok er að afklæða lík kvenna sem hafa verið drepnar eða látist í slysum. Þetta hafa þeir til dæmis gert með lík konu sem bandarísk innflytjendayfirvöld myrtu í Minneapolis á miðvikudag.


Tengdar fréttir

Sænskur ráðherra hlutgerður á miðli Musk

Evrópsk yfirvöld eru byrjuð að skoða fjöldaframleiðslu spjallmennis Elons Musk á kynferðislegum myndum af táningsstúlkum og konum. Varaforsætisráðherra Svíþjóðar er á meðal kvenna sem miðillinn leyfir notendum sínum að hlutgera á samfélagsmiðlinum X með hjálp spjallmennisins.

Rann­saka klám­myndir spjall­mennis Musk af táningum

Frönsk yfirvöld ætla að rannsaka framleiðslu Grok, spjallmennis samfélagsmiðilsins X, á fölsuðum klámmyndum af konum. Hundruð kvenna og táningsstúlkna hafa tilkynnt um að spjallmennið hafi verið notað til þess að búa til kynferðislegar myndir af þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×