Erlent

Rann­saka nú og skoða á­kærur gegn seðlabankastjóranum

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Jerome Powell, þegar Trump kynnti sér framkvæmdir á húsnæði Seðlaankans síðsta sumar.
Donald Trump og Jerome Powell, þegar Trump kynnti sér framkvæmdir á húsnæði Seðlaankans síðsta sumar. AP/Julia Demaree Nikhinson

Bandarískir alríkissaksóknarar hafa myndað ákærudómstól sem ætlað er að rannsaka Jerome Powell, seðlabankastjóra, og mögulega ákæra hann. Rannsóknin tengist vitnisburði hans á þingfundi þar sem hann var spurður út í endurbætur á húsnæði seðlabankans.

Bankastjórinn birti í gær fordæmalausa yfirlýsingu á myndbandi þar sem hann sagði frá rannsókninni. Þar kallaði hann rannsóknina fyrirslátt og hluta af herferð Donalds Trump, forseta, til að þvinga Seðlabankann til að lækka stýrivexti og grafa undan sjálfstæði hans.

Powell segir hótanir ríkisstjórnarinnar ekki snúast um vitnisburð hans á fundi bankanefndar öldungadeildarinnar í júní, eða áðurnefndar endurbætur, sem Trump hefur ítrekað talað um með þeim hætti að þær kosti allt of mikið og sagt vera einhvers konar svindl.

Trump hefur ítrekað sagt að Powell ætti að hætta og sagst ætla að reka hann, þó Trump hafi sjálfur skipað hann á sínum tíma og hafi ekki völd til að víkja honum úr embætti fyrr en skipunartíma hans lýkur hinn 15. maí.

Seðlabankinn á að njóta sjálfstæðis frá ríkisstjórn Bandaríkjanna, þó bæði bankastjóri og stjórn hans séu tilnefnd af forseta og þær staðfestar af öldungadeildinni.

„Almannaþjónusta felur stundum í sér þörf á að standa í lappirnar gegn ógnunum. Ég mun halda áfram að vinna vinnuna sem öldungadeildin veitti mér, af heillindum og ábyrgð til að þjóna bandarísku þjóðinni,“ sagði Powell.

Trump sagðist í gærkvöldi ekki vita af rannsókninni og hélt því fram að hún tengdist ekkert illdeilum hans við Powell, samkvæmt frétt Wall Street Journal.

Í svari við fyrirspurn WSJ segir Pam Bondi, dómsmálaráðherra, að hún vilji ekki tjá sig um þetta tiltekna mál að öðru leyti en að hún hafi gefið saksóknurum sínum almennar skipanir um að leggja meiri áherslu á að rannsaka misnotkun á opinberu fé.

Ítrekað harðorður í garð Powells

Trump tilnefndi Powell til starfsins í nóvember 2017. Hann var svo ráðinn aftur af Joe Biden en frá því hann tók aftur við embætti og jafnvel fyrr hefur Trump ítrekað gagnrýnt Powell harðlega. Forsetinn hefur margsinnis krafist þess að Powell lækki stýrivexti og brugðist reiður við þegar Seðlabankinn hefur ekki gert það.

Sjá einnig: Um­mæli Trumps um „meiriháttar lúser“ leggjast illa í markaðinn

Forsetar Bandaríkjanna hafa í gegnum árin kvartað þegar þeim finnst rangt haldið á spöðunum innan seðlabankans þegar kemur að stýrivöxtum. Trump hefur þó gengið lengra en nokkur annar forseti í nútímanum.

Fjárfestar á Wall Street eru sagðir hafa áhyggjur af því að óstöðugleiki verði meiri í vor, þegar Trump skipar nýjan mann í starfið. Hver það á að vera liggur ekki fyrir að svo stöddu.

Ákærudómstólar eru sérstakt bandarískt fyrirbæri þar sem almennir kviðdómendur eru fengnir til að fara yfir sönnunargögn yfirvalda í tilteknum málum og segja til um hvort þeim þyki tilefni til að leggja fram formlegar ákærur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×