Viðskipti innlent

Úr út­varpinu í orkumálin

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Hafdís Helga Helgadóttir hefur starfað á Rúv undanfarin ár en reynir nú fyrir sér á nýjum vettvangi.
Hafdís Helga Helgadóttir hefur starfað á Rúv undanfarin ár en reynir nú fyrir sér á nýjum vettvangi. Vísir/aðsend

Fjölmiðlakonan Hafdís Helga Helgadóttir hefur verið ráðin upplýsingafulltrúi Samorku, hagsmunasamtaka orku- og veitufyrirtækja á Íslandi. Hafdís Helga er með BA-gráðu í leiklist frá Listaháskóla Íslands en hún færir sig til Samorku frá Ríkisútvarpinu þar sem hún hefur starfað sem fréttamaður og við dagskrárgerð undanfarin átta ár, nú síðast sem umsjónarmaður Morgunútvarpsins á Rás 2.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samorku.

„Orku- og veitumálin eru stórkostlega spennandi um þessar mundir og framtíðin kallar á lifandi og ábyrgt samtal um þau. Ég er bæði glöð og spennt að fá tækifæri til að taka þátt í þeirri umræðu sem upplýsingafulltrúi Samorku. Það er mikill heiður að starfa með öllu því einstaka fagfólki sem vinnur að sjálfbærri framtíð í orku- og veitumálum landsins,“ er haft eftir Hafdísi í tilkynningunni.

Líkt og áður segir er Samorka samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi en aðildarfyrirtæki Samorku reka grundvallarinnviði samfélagsins eins og því er lýst í tilkynningunni. Þar undir eru hita-, vatns- og fráveitukerfi landsins auk þess sem undir samtökin heyra fyrirtæki úr allri virðiskeðju grænnar raforku, það er framleiðslu, flutningi, dreifingu, sölu og ráðgjöf.

Fréttir af fækkun starfsfólks í fjölmiðlastéttinni hafa vakið athygli að undanförnu. Í lok síðasta árs var nokkrum blaða- og fréttamönnum sagt upp hjá Árvakri, útgefanda mbl.is og Morgunblaðsins, auk þess sem blaðamönnum hefur fækkað á fréttastofu Sýnar undanfarin misseri. Þá hafa jafnframt verið mannabreytingar hjá Ríkisútvarpinu sem auk þess hætti að senda út tíufréttir í fyrra.

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×