Innlent

Skýr mynd komin á dular­fullt and­lát á Skjólbraut

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn lést í íbúðahúsi að Skjólbraut í Kópavogi.
Maðurinn lést í íbúðahúsi að Skjólbraut í Kópavogi. Vísir/Vilhelm

Lögregla telur sig vera komna með skýra mynd á atburði í heimahúsi að Skjólbraut í Kópavogi í nóvember, þar sem portúgalskur maður lést. Gæsluvarðhald yfir Grikkja sem grunaður er um að hafa ráðið manninum bana átti að renna út í dag en hefur verið framlengt um fjórar vikur.

Þetta segir Eiríkur Valberg, fulltrúi í rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi. Hann segir að það sem helsta sem vanti í rannsókn málsins séu utanaðkomandi gögn, krufningarskýrsla, niðurstöður DNA-rannsókna og þess háttar.

Það var sunnudaginn 30. nóvember sem karlmaður frá Portúgal fannst látinn á heimili sínu á Kársnesinu í Kópavogi. Nágrannar fylgdust með lögreglubílum drífa að og var tæknideild lögreglu að störfum í húsinu í lengri tíma.

Grískur karlmaður sem sætir nú gæsluvarðhaldi var handtekinn nokkrum dögum síðar en sleppt þegar stutt gæsluvarðhald rann út. Hann var svo handtekinn á ný innan við sólarhring síðar og úrskurður í gæsluvarðhald þann 10. desember. Gæsluvarðhald það var framlengt þann 17. desember til dagsins í dag og svo aftur um fjórar vikur.

Fréttin var uppfærð eftir að tilkynnt var að gæsluvarðhald yfir manninum hefði verið framlengt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×