Skoðun

Hverfur Gleðigangan?

Guðmundur Ingi Þórodsson skrifar

Árangur Íslands í mannréttindabaráttu hinsegin fólks hefur lengi verið talinn sjálfsagður. Sá árangur er þó hvorki varanlegur né sjálfgefinn heldur er hann afleiðing áratugalangrar baráttu, pólitískrar forystu og samfélagslegrar samstöðu. Nú er ljóst að þessi staða er undir þrýstingi.

Víða um heim má sjá skýra tilfærslu langt til hægri í stjórnmálum. Sú þróun birtist í tortryggni gagnvart mannréttindum, aukinni andúð á fjölbreytileika og orðræðu sem gerir jaðarsetta hópa að vandamáli og er Ísland engin undantekning. Hér hafa stjórnmálaöfl til miðju og hægri, bæði beint og óbeint, tekið undir hugmyndir sem grafa undan réttindum hinsegin fólks og veikja þá samfélagslegu vernd sem hefur verið byggð upp.

Sérstaklega alvarlegt er þegar stjórnmálaöfl boða beina afturför. Dæmi um það eru yfirlýsingar frá stjórmálasamtökum, þar sem lýst er yfir vilja til að rifta samningum við Samtökin ‘78 og stöðva fræðslu í skólum. Slíkar ákvarðanir eru ekki hlutlausar. Þær fela í sér kerfislægt bakslag, veikja forvarnir gegn fordómum og skaða sérstaklega börn og ungmenni sem þurfa á öryggi og viðurkenningu að halda. Slíkt veldur mér og hinseginsamfélaginu skaða og erfiðleikum, og mun ég ekki taka því þegjandi.

Fræðsla Samtakanna ‘78 hefur verið burðarstoð í því að efla þekkingu og skapa öruggara samfélag og á ég sjálfur þeim mikið að þakka. Að slíta slíku samstarfi sendir skýr skilaboð um að réttindi og sýnileiki hinsegin fólks séu umdeilanleg. Í slíku umhverfi eru viðburðir á borð við Gleðigönguna ekki lengur sjálfsagðir heldur verða auðveld skotmörk eins og í Ungverjalandi nýverið.

Mannréttindi viðhaldast ekki með þögn heldur með þátttöku og samhug. Þátttaka í stjórnmálum snýst ekki aðeins um kosningar á kjördag heldur einnig um það hverjir móta stefnu, sitja í lykilstöðum og taka þátt í samvinnu og málamiðlunum sem einkenna íslenskt lýðræði. Þar skiptir máli að hinsegin fólk sé virkur þátttakandi í ákvarðanatöku um eigin réttindi.

Við stöndum á tímamótum. Annað hvort verjum við þann árangur sem hefur náðst eða leyfum þróun til afturhalds að festa rætur. Barátta hinsegin fólks er ekki einkamál heldur prófsteinn á hvort samfélag stendur vörð um mannvirðingu, jafnrétti og réttlæti.

Ég heiti Guðmundur Ingi Þóroddsson og sækist eftir 3.sæti í flokksvali Samfylkingarinnar 24.janúar. Taktu þátt og skráðu þig til að hafa rétt til að kjósa og stattu með hinseginsamfélaginu á: https://xs.is/takathatt og settu mig í 3.sætið.

Ef þú hefur áhuga á að styðja við þessa baráttu þá býð ég þér í hýrasta framboðspartý ársins á laugardaginn á Kabarett Bankastræti 5 milli klukkan 18:00 til 20:00.

Höfundur er formaður Afstöðu-réttindafélags, hinseginn og sérhæfður starfsmaður Landspítala háskólasjúkrahúss. Hann býður sig fram í þriðja sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2026.




Skoðun

Sjá meira


×