Handbolti

Virtur handboltasérfræðingur spáir því að EM-bronsið fari til Ís­lands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fagna íslensku strákarnir á EM í handbolta. Það eru margir handboltasérfræðingar á því.
Fagna íslensku strákarnir á EM í handbolta. Það eru margir handboltasérfræðingar á því. Getty/Marvin Ibo Guengoer

Það virðast vera margir á því að íslensku handboltastrákarnir komi með verðlaunapening með sér heim af Evrópumótinu í handbolta sem hefst í dag.

Nýjasti handboltaspekingurinn til að lýsa yfir mikilli trú á íslenska landsliðið á mótinu er Daninn Rasmus Boysen.

Boysen fylgist afar vel með handboltanum og þekkir því vel til þess sem er í gangi í alþjóðlegum handbolta.

Hann spáir Dönum Evrópumeistaratitlinum og að þeir vinni Frakka í úrslitaleiknum.

Boysen setur aftur á móti Ísland í þriðja sætið á undan Svíum. Samkvæmt spá hans þá mun íslenska liðið verða ofar en bæði Ungverjaland og Króatía sem verða væntanlega á vegi liðsins í riðlinum eða milliriðlinum.

Íslenska landsliðið hefur aðeins einu sinni unnið til verðlauna á Evrópumóti en það var á EM í Austurríki 2010 þar sem íslenska landsliðið varð í þriðja sæti eftir sigur á Póllandi í leiknum um þriðja sætið. Ísland komst líka í undanúrslitin á EM í Svíþjóð 2002 en varð þá að sætta sig við fjórða sætið eftir tap á móti Dönum í leiknum um þriðja sætið.

Boysen telur síðan að Daninn frábæri Mathias Gidsel verði bæði markahæstur og mikilvægasti leikmaður mótsins. Portúgalinn Francisco Costa verður besti ungi leikmaðurinn.

Svisslendingar koma á óvart að hans mati en þetta gæti orðið erfitt mót fyrir Dag Sigurðsson og lærisveina hans í króatíska landsliðinu því Boysen býst við því að þeir valdi mestum vonbrigðum á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×