Skoðun

Reykja­vík er okkar

Viðar Gunnarsson skrifar

Í vor kjósum við borgarfulltrúa sem stjórna Reykjavík næstu fjögur árin. Þessar kosningar snúast ekki aðeins um nöfn og lista – heldur um hvaða gildi eiga að leiða borgina okkar áfram. Þá gefst okkur tækifæri til að kjósa nýtt afl, Vor til vinstri, undir forystu Sönnu Magdalenu – öflugt vinstri framboð sem setur fólkið í forgang, óháð flokksmerkjum.

Borg er samfélag

Borg er meira en hús, götur og framkvæmdir. Borg er samfélag. Hún byggist á fólki – alls konar fólki. Börnum og ungmennum, eldra fólki, fólki með fötlun, fólki með geðrænar áskoranir, fólki með vímuefnavanda, heimilislausu fólki, fátækum og ríkum. Borg sem virðir allt fólk, er borg sem stendur undir nafni.

Félagshyggja byggir á einfaldri en öflugri hugmynd: að samfélagið beri sameiginlega ábyrgð á velferð allra. Hún stendur fyrir jöfnuð, samstöðu og réttlæti – að lífsgæði fólks ráðist ekki af efnahag, uppruna eða aðstæðum, heldur af mannlegri reisn og sameiginlegri ábyrgð.

Í félagshyggju er fólk ekki keppinautar heldur samferðafólk. Sterkt velferðarkerfi, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, menntun fyrir alla og öruggt húsnæði eru ekki sérréttindi heldur grundvallarréttindi. Samfélag sem fjárfestir í fólkinu sínu er samfélag sem byggir traustum grunni til framtíðar.

Jöfnuður og húsnæðis eru grundvallarréttindi

Í borg sem byggir á félagshyggju er jöfnuður leiðarljós. Þar er grunnþjónusta sterk, velferðarþjónusta öflug og raunveruleg áhersla lögð á forvarnir. Slík nálgun sparar ekki aðeins fjármuni til lengri tíma heldur skapar traust, öryggi og betra mannlíf fyrir alla.

Húsnæðismál eru eitt stærsta réttlætismál samtímans. Öruggt og hagkvæmt húsnæði á að vera raunverulegur valkostur fyrir alla – ekki forréttindi fárra. Borg sem bregst í húsnæðismálum bregst fólkinu sínu.

Þess vegna skiptir máli að styðja stjórnmál sem byggja á félagshyggju. Vor til vinstri boðar skýra vinstristefnu, samfélagslega ábyrgð og hugrekki til að horfast í augu við rót vandans. Þar er talað skýrt fyrir réttlátri skiptingu gæða, öflugri opinberri þjónustu og framtíðarsýn sem þjónar almenningi – ekki fáum útvöldum.

Sameinumst um réttláta framtíð Reykjavíkur

Jafnframt skiptir máli að fylkja sér um leiðtoga sem sameinar fólk, hlustar og stendur fast á gildum sínum. Sanna Magdalena hefur sýnt að hún er rödd samstöðu, mannúðar og réttlætis. Með skýra sýn og heiðarleika leiðir hún baráttuna fyrir borg þar sem allir fá að njóta sín.

Kosningar snúast ekki bara um flokka – þær snúast um framtíðina sem við viljum byggja. Með því að kjósa Vor til vinstri og standa saman með Sönnu tökum við skýra afstöðu: fyrir félagshyggju, fyrir jöfnuði og fyrir samfélagi þar sem enginn er skilinn eftir.

Reykjavík er okkar. Sameinumst um réttlátara samfélag. Sameinumst um félagshyggju.

Höfundur er Viðar Gunnarsson, fyrverandi teymisstjóri Vettvangs- og ráðgjafateymis Reykjavíkur (VOR).




Skoðun

Sjá meira


×