Handbolti

„Geri mér vonir um að þetta verði mótið þar sem allt smellur“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bjarki Már fer afar bjartsýnn inn í EM.
Bjarki Már fer afar bjartsýnn inn í EM.

„Það er bara fín tilfinning að vera orðinn einn af gömlu mönnunum í landsliðinu. Ég hef svo sem verið það í nokkur ár en tilfinningin er góð,“ segir hornamaðurinn Bjarki Már Elísson sem þarf að axla ábyrgð innan sem utan vallar á EM í Svíþjóð.

Sem hluti eldri kynslóðarinnar í liðinu lítur Bjarki Már á það sem sína skyldu að gefa af sér til hinna yngri.

„Það er ekkert nýtt í ár samt. Ég hef gert það síðustu ár. Kannski meira núna þar sem Aron er farinn. Ég mun gera mitt besta að vera til staðar fyrir strákana. Halda stemningunni góðri. Að sé smá líf í þessu. Annars er ekkert gaman að þessu.“

Klippa: Bjarki Már er bjartsýnn

Reynsluboltinn er ekkert búinn að gleyma hversu gaman var að spila í Kristianstad fyrir þremur árum síðan og hann bíður spenntur eftir því að mæta í stemninguna.

„Það var sturlun. Þetta var bara eins og að vera á heimavelli. Maður fær gæsahúð við tilhugsunina. Við erum spenntir en þurfum að halda spennustiginu góðu. Halda fókus og allt þetta leiðinlega dót.“

Það er mikið talað um að Ísland sé í dauðafæri að komast í undanúrslit á þessu móti og mikils vænst af liðinu. Finnur Bjarki fyrir þeirri pressu?

„Það er eiginlega óhjákvæmilegt að sjá þetta ekki. Leiðin hefur svo sem verið ágæt á síðustu mótum. Það hefur ekki verið að stríða okkur. Það er komin ákveðin reynsla í hópinn núna. Það hentar okkur mjög illa að hugsa eitthvað lengra en bara um riðilinn. Við erum með lið sem getur tapað fyrir Ítalíu og Póllandi og því verðum við að vera klárir. Þá kemur aftur að mínu hlutverki að halda mönnum á jörðinni,“ segir Bjarki Már ákveðinn en finnur liðið fyrir pressu?

„Hún er alltaf til staðar og það er bara gott. Hún kemur ekki bara að utan heldur er hún líka innan hópsins. Það eru allt miklir keppnismenn í liðinu. Svo er stutt á milli í þessum mótum eins og við höfum komist að. Það er bara einn hálfleikur sem getur skemmt allt en ég geri mér vonir um að þetta verði mótið sem allt smellur.“


Tengdar fréttir

„Þetta er ekki flókið“

Ómar Ingi Magnússon er landsliðsfyrirliði Íslands á komandi Evrópumóti sem hefst með leik við Ítali á morgun. Hann er klár í slaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×