Handbolti

Svona er leiðin að verð­launum: Ís­land sleppur við allra bestu liðin

Sindri Sverrisson skrifar
Slóvenía er eitt af liðunum sem gæti átt eftir að berjast við Ísland um sæti í undanúrslitum.
Slóvenía er eitt af liðunum sem gæti átt eftir að berjast við Ísland um sæti í undanúrslitum. EPA/ANTONIO BAT

Liðin sem unnið hafa titlana á síðustu stórmótum í handbolta geta ekki mætt Íslandi fyrr en í fyrsta lagi í undanúrslitum, á EM karla í handbolta sem hófst í gær.

Hér að neðan má sjá leið liðanna á EM í undanúrslit mótsins, og þar með í leik um verðlaun á mótinu. Auðvitað er enginn rauður dregill í boði en flestir eru sammála um að Ísland, Svíþjóð og fleiri lið á „hægri væng“ mótsins hafi haft heppnina með sér þegar dregið var í riðla.

Tvö lið komast úr hverjum riðli og mynda tvo sex liða milliriðla, þaðan sem tvö lið komast svo úr hvorum milliriðli í undanúrslit.

Íslandi spáð velgengni

Sérfræðingar hafa spáð því að íslenska liðið komist í undanúrslitin og veðbankar eru einnig á því að Svíþjóð og Ísland séu líklegust til þess að komast þangað, af þeim liðum sem endað gætu í milliriðli 2 á mótinu.

Ríkjandi Ólympíu- og heimsmeistarar Danmerkur, ríkjandi Evrópumeistarar Frakklands og Ólympíusilfurdrengir Alfreðs Gíslasonar í Þýskalandi, fara allir í milliriðil 1, ásamt til að mynda Spáni, Portúgal og Noregi, nema einhver þessara liða falli óvænt snemma úr leik. Ísland gæti því ekki mögulega mætt neinu af þessum liðum fyrr en í undanúrslitum.

Taka strákarnir tvö stig með sér?

Fyrsta verkefni Íslands er hins vegar að komast áfram úr F-riðlinum í Kristianstad, helst með tvö stig með sér. Liðið mætir Ítalíu í dag, Póllandi á sunnudag og Ungverjalandi næsta þriðjudag.

Ef Ísland kemst áfram í milliriðil taka við fjórir leikir til viðbótar dagana 23., 25., 27. og 28. janúar, í Malmö.

Ef allt gengur upp koma helstu keppinautar Íslands í milliriðli, um tvö laus sæti í undanúrslitum, til með að verða Svíþjóð, Króatía og Slóvenía, auk Ungverjalands. Sem sagt engir aukvisar, þó að allra sterkustu liðin séu „hinu megin“ í mótinu. Svíar hlutu til að mynda brons á síðasta EM og verða á heimavelli fram að undanúrslitum, Króatarnir hans Dags Sigurðssonar fengu silfur á HM fyrir tæpu ári, og Slóvenar fóru í undanúrslit á síðustu Ólympíuleikum.


Tengdar fréttir

„Geri mér vonir um að þetta verði mótið þar sem allt smellur“

„Það er bara fín tilfinning að vera orðinn einn af gömlu mönnunum í landsliðinu. Ég hef svo sem verið það í nokkur ár en tilfinningin er góð,“ segir hornamaðurinn Bjarki Már Elísson sem þarf að axla ábyrgð innan sem utan vallar á EM í Svíþjóð.

Ekki innistæða fyrir því að vera kokhraustir

„Það er kominn fiðringur og spenningur,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, fyrir fyrsta leik liðsins á EM sem fram fer í dag.

„Þetta er ekki flókið“

Ómar Ingi Magnússon er landsliðsfyrirliði Íslands á komandi Evrópumóti sem hefst með leik við Ítali á morgun. Hann er klár í slaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×