Handbolti

Einar enn í ein­angrun en aðrir ferskir

Valur Páll Eiríksson skrifar
Strákarnir slakir fyrir æfingu dagsins.
Strákarnir slakir fyrir æfingu dagsins. Vísir/VPE

Einar Þorsteinn Ólafsson liggur enn lasinn á liðshóteli íslenska karlalandsliðsins sem æfði í keppnishöllinni í Kristianstad í dag.

Valur Páll Eiríksson skrifar frá Kristianstad

Það var létt yfir landsliðsmönnum eftir góðan 13 marka sigur á Ítalíu í fyrsta leik í gær. Æfing fór fram eftir hádegið í keppnishöllinni þar sem drengirnir búa sig undir heldur frábrugðið verkefni er þeir mæta Pólverjum á morgun.

Landsliðið æfði í keppnishöllinni í Kristianstad í dag.Vísir/VPE

Pólverjar töpuðu með átta marka mun fyrir Ungverjalandi í gærkvöld þar sem Snorri Steinn Guðjónsson og þjálfarateymi Íslands á að hafa fengið ágæta mynd af pólska liðinu sem hefur verið í feluleik fyrir mót. Ekki var hægt að fá aðgang að upptökum af leikjum liðsins í aðdragandanum en þeir fá engu ráðið um upptöku af leiknum í gær.

Pólverjarnir spila undir stjórn Spánverjans Jota Gonzalez sem er þjálfari Benfica í Portúgal. Sá er hrifinn af því að spila með sjö gegn sex og gæti íslenska vörnin því átt von á því að takast á við tvo línumenn stóra hluta leiks á morgun.

Ísland verður án Einars Þorsteins Ólafssonar sem hefur legið lasinn á liðshótelinu frá því í fyrradag. Hann var skikkaður strax í einangrun og annað herbergi fundið fyrir herbergisfélaga hans Andra Má Rúnarsson sem spilaði sinn fyrsta leik á stórmóti í gær.

Farið verður betur yfir sviðið í EM í dag sem birtist á Vísi síðar í dag og viðtöl við landsliðsmenn sömuleiðis væntanleg.

Liðinu verður sem fyrr fylgt eftir hvert fótmál hér í Kristianstad fram að leiknum við Pólverja sem er klukkan 17:00 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×