Erlent

Þjóð­verjar snúa heim frá Græn­landi

Agnar Már Másson skrifar
Þýsku hermennirnir flugu með vél Icelandair til Íslands í dag.
Þýsku hermennirnir flugu með vél Icelandair til Íslands í dag. FlightRadar

Eftir aðeins tvo daga á heræfingu á Grænlandi snúa þýskir hermenn aftur heim, en þeir millilentu á Íslandi síðdegis í dag. Talsmaður hersins segir að verkefni hermannana sé lokið. Fulltrúar íslensku landhelgisgæslunnar verða um kyrrt í Grænlandi í bili, að sögn gæslunnar.

Samkvæmt heimildum þýska dagblaðsins Bild fengu hermennirnir skipanir um að yfirgefa Grænland snemma í morgun. 

Miðillinn að allir fimmtán þýsku hermennirnir sem sendir voru norður í vikunni hafi farið um borð í vél Icelandair, sem tók á loft í Nuuk rétt fyrir hádegi í dag og lenti á Keflavíkurflugvelli kl. 16.30.

Þýskalandsher sendi „könnunarteymi“ til Grænlands í vikunni til að taka þátt í heræfingu ásamt hermönnum frá Hollandi, Bretlandi, Þýskalandi og Norðurlöndum að Íslandi undanskildu. 

Ísland sendi reyndar einnig tvo fulltrúa Landhelgisgæslunnar á æfinguna á Grænlandi og eru þeir enn þar, samkvæmt svörum gæslunnar við fyrirspurn Vísis.

Frá 16. janúar, þegar þýsku hermennirnir mættu (degi of seint vegna veðurs) til Grænlands.Getty

Dagblaðið Bild bendir enn fremur á að þýsk hernaðaryfirvöld hefðu í gær tilkynnt að þýsku hermennirnir myndu ílengjast á Grænlandi þar sem þeim seinkaði um einn dag á leið sinni til landsins.

Aftur á móti er haft eftir talsmanni þýska hersins í frétt AA að niðurstöður könnunarferðarinnar væru „fullnægjandi“. Talsmaðurinn segir að sendiför hafi ekki verið aflýst, heldur hafi henni verið „lokið samkvæmt skipun.“

Þessi heræfing er haldin í skugga hótana Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að leggja undir sig Grænland, sem heyrir enn undir dönsku krúnuna. Trump varpaði í gær sprengju inn í Atlantshafsbandalagið (NATO) þegar hann boðaði tolla á átta aðildarríki sem studdu ekki innlimunaráform Bandaríkjastjórnar um Grænland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×