Skoðun

Sel­tjarnar­nes og fjár­hagurinn – við­varandi halla­rekstur

Sigurþóra Bergsdóttir skrifar

Seltjarnarnes er gott samfélag með mikla kosti. Hér er sterk samfélagsvitund, öflugt skóla- og íþróttastarf og gott mannlíf. Þetta er bær sem margir velja sér vegna lífsgæða og halda tryggð við. En jafnvel sterk samfélög verða ekki rekin til lengdar án traustra fjármála.

Undanfarin ár hefur fjárhagsstaða Seltjarnarness versnað jafnt og þétt. Bærinn hefur rekið sig með halla ár eftir ár. Hallarekstur þýðir einfaldlega að útgjöld eru meiri en tekjur, og sá munur þarf annaðhvort að vera fjármagnaður með lánum, sölu eigna eða með því að ganga á veltufé og varasjóði.

Stakt ár með halla getur verið eðlilegt, til dæmis vegna stórra framkvæmda eða óvæntra áfalla. Vandinn skapast þegar hallinn verður viðvarandi.

Tölurnar segja sína sögu

Uppsafnaður halli A hluta bæjarsjóðs á þessu kjörtímabili nemur um 2,3 milljörðum króna. Samtals halli A- og B hluta er um 1,6 milljarðar króna. Fyrir árið 2026 er gert ráð fyrir 117 milljóna króna halla á A hluta.

Sé þessi þróun sett í samhengi við tekjur kemur í ljós að rekstur bæjarins hefur verið með 8–10% halla af heildartekjum yfir tímabilið. Til samanburðar grípa flest sveitarfélög til aðgerða þegar halli fer yfir 2–3%. Við erum því komin langt út fyrir þau mörk sem teljast ásættanleg.

Afleiðingar sem sjást í daglegu lífi

Hallarekstur er ekki óhlutbundið bókhaldsatriði. Þegar tekjur duga ekki lengur til daglegs reksturs neyðist sveitarfélag til að:

  • fresta viðhaldi,
  • taka lán,
  • ganga á veltufé,
  • eða draga úr þjónustu.

Þetta gerist sjaldan allt í einu. Afleiðingarnar koma smám saman. Við sjáum þær í skólakerfinu, þar sem frestað viðhald hefur leitt til alvarlegra vandamála. Við sjáum stöðnun í uppbyggingu, verri ásýnd bæjarins og aukið álag á starfsfólk. Börn, ungt fólk og eldra fólk finna fyrst fyrir þessari þróun.

Þegar hallarekstur varir lengi myndast vítahringur: lakari innviðir kalla á hærri kostnað síðar, sem aftur veikir fjárhag bæjarins enn frekar.

Áhætta fyrir sjálfstæði bæjarins

Viðvarandi hallarekstur snýst ekki aðeins um þjónustu, heldur einnig um sjálfstæði sveitarfélagsins. Seltjarnarnes hefur þegar verið varað við af eftirlitsnefnd sveitafélaga vegna frávika frá jafnvægisreglu og lykilviðmiðum. Ef ekkert er gert eykst hættan á aukinni yfirstjórn, skerðingu á fjárhagslegu sjálfsforræði eða utanaðkomandi íhlutun.

Reynsla annarra sveitarfélaga sýnir að slík þróun getur í versta falli leitt til sameiningarþrýstings eða stjórnunar utan frá.

Hversu lengi höfum við?

Miðað við stærð hallans og þróun síðustu ára er svarið einfalt, þó óþægilegt: ekki lengi. Viðvarandi halli af þessari stærðargráðu er yfirleitt þolanlegur í 1–3 ár í viðbót, nema gripið verði strax til raunverulegra aðgerða. Þetta er ekki pólitísk afstaða heldur stærðfræði.

Valið sem blasir við

Staðan er alvarleg en hún er leysanleg. Með raunhæfri áætlanagerð, skýrri forgangsröðun, endurskoðun á tekjumódeli og bættri stjórnun samninga og fjárfestinga er hægt að snúa þessari þróun við. En því lengur sem beðið er, þeim mun erfiðari og sársaukafyllri verða aðgerðirnar.

Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er því ekki hvort bregðast eigi við, heldur hvenær.

Seltjarnarnes er gott samfélag. Einmitt þess vegna ber okkur skylda til að verja það – með ábyrgum fjármálum, upplýstri umræðu og ákvörðunum sem tryggja framtíð bæjarins.

Höfundur er bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra í bæjarstjórn Seltjanarness.




Skoðun

Sjá meira


×