Skoðun

Drengirnir á mat­seðlinum

Sigurður Árni Reynisson skrifar

Ef þú ert ekki við borðið, þá ertu á matseðlinum. Þessi setning var sögð af Mark Carney, forsætisráðherra Kanada, á ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss þann 20. janúar síðastliðinn. Með henni var hann í raun að segja að ef þú situr ekki við borðið og tekur þátt í ákvörðunum, þá verða ákvarðanir teknar fyrir þig. Setningin átti að lýsa stöðu ríkja í nýrri og harðari heimsmynd. En hún á ekki bara við í heimsmálum. Hún á líka heima í menntamálum, í lífi drengja, fjölskyldna og þeirra sem kerfin ná ekki utan um.“

Þegar ég heyrði þessa setningu í fyrsta sinn þá hugsaði ég ekki um stórveldi. Ég hugsaði um skólastofur, biðlista og foreldra sem bíða eftir símtali. Ég hugsaði um drengina mína sem sitja í skólastofunni, horfa út um gluggann og velta fyrir sér hvort einhver sjái þá í raun og veru. Því jafnvel í samfélagi sem vill vel getur orðið til veruleiki þar sem sumir fá sæti við borðið og aðrir standa stöðugt til hliðar.

Ég er ekki talsmaður stórvelda. Ég er talsmaður þeirra sem fá sjaldan sæti við borðið. Ég tala fyrir drengina sem eru kallaðir truflandi áður en einhver spyr hvað truflar þá. Fyrir börnin sem fá miða heim áður en þau fá stuðning. Fyrir foreldra sem verða verkefnastjórar í kerfi sem ætti að bera ábyrgð sjálft. Fyrir kennara sem verða brunavarnir kerfis sem er hannað til að bregðast.

Ég tala fyrir drengina okkar sem læra snemma að þeir séu „málið“ sem þarf að leysa. Ég tala fyrir þá sem finna á eigin skinni að athyglin kemur oftar í formi leiðréttinga en tengsla. Ég tala fyrir þá sem fá að heyra hvað þeir eigi að hætta að gera, miklu oftar en þeir fá að heyra hvað þeir eru góðir í eða hvað þeir hafa fram að færa og hvað gerir þá einstaka.

Í stóra samhenginu er verið að tala um valdajafnvægi, alþjóðakerfi og reglur sem eru að bresta. Í daglegum veruleika félagskerfa okkar hér heima, þ.e. í skólanum, þjónustukerfunum, barnavernd og greiningarferlum, snýst valdabaráttan um nákvæmlega sömu grundvallarspurningar: Hver fær rödd við borðið, hver fær úrræði, hver fær að skilgreina vandann og lausnina fyrir drengina sem þau hafa aldrei hitt. Og á endanum: Hver fær fjármagnið til að greiða úr vanda skólakerfisins?

En þetta snýst ekki bara um peninga eða skort á úrræðum. Þetta snýst líka um menningu. Um það hvernig við hugsum um frávik eða hvort við sjáum hegðun sem boðskap eða bara truflun. Um það hvort við spyrjum: „Hvað er að þessum dreng“ eða hvort við spyrjum: „Hvað er að gerast í lífi þessa drengs?“

Þegar drengur er ekki við borðið, þá er hann ekki bara utan við umræðuna, hann verður hluti af henni, án þess að fá rödd. Hann verður merktur, flokkaður og settur í box, ekki endilega ranglega, heldur oft of snemma, of þröngt og án þess að kerfið taki ábyrgð á sínum hluta. Þá færist ábyrgðin yfir á drenginn, í stað þess að vera sameiginlegt verkefni, og oftar en ekki situr maður eftir með þá tilfinningu að flokkunin byggist ekki alltaf á vönduðu, heildstæðu mati, heldur mótist hún af skoðunum og orðræðu sem verður til í samtölum, á göngum skólanna, í skýrslum og í ráðuneytum. Þar geta orð og stimplar farið á flug áður en raunveruleg mynd drengsins hefur fengið að mótast og alltof oft eru það fjárhagsleg sjónarmið sem ráða ferðinni. Þá verða drengirnir vandamálið sem þarf að vinna í gegnum, og í því ferli gleymum við stundum að þeir eru fyrst og fremst manneskjur. Drengirnir okkar eru ekki vandamál, þeir eru ekki skjal eða tölfræði. Þeir eru drengir í mótun, í þroskaferli, í leit að því að skilja sjálfa sig og heiminn í kringum þá.

Ég var einn af þessum drengjum. Það tók mig langan tíma að átta mig á því að ég var ekki vondur, þótt hegðun mín væri oft erfið, og ekki heimskur, þótt ég gerði heimskulega hluti. Hluti af þroskaferlinu var að læra að maður er ekki það sama og mistök sín. Ég passaði einfaldlega ekki alltaf í það form sem kerfið bauð upp á. Þegar ég passaði ekki í formið, þá varð ég sjálfur vandamálið sem þurfti að laga. Það skilur eftir sig spor í skömm, reiði og hjálparleysi og stundum djúpa sannfæringu um að maður eigi einfaldlega ekki heima við borðið.

Þessi sannfæring er lúmsk. Hún segir manni að maður eigi að vera þakklátur fyrir það sem maður fær. Hún segir manni að maður eigi ekki að vera fyrir. Hún segir manni að maður eigi að reyna aðeins meira, vera aðeins minna, taka aðeins minna pláss. Og þegar maður hefur lært þetta sem barn, þá ber maður það oft með sér langt inn í fullorðinsárin.

Það sem hræðir mig mest í dag er ekki að við höfum ekki þekkinguna, heldur að við höfum hana, en það er eins og við viljum ekki hanna kerfi til að nýta hana. Eftir hverju erum við eiginlega að bíða? Við vitum að snemmtæk íhlutun skiptir máli. Við vitum að lestrarvandi, ADHD, málþroskaraskanir og tilfinningavandi fléttast saman við námsfærni drengja. Við vitum að drengir detta oftar á milli kerfa. En samt byggjum við kerfi þar sem einstaklingar þurfa að berjast fyrir hverju sæti við borðið.

Foreldrar verða talsmenn, verkefnastjórar, bréfritarar og baráttumenn. Kennarar verða milliliðir, skjólveggir og brunavarnir. Og börnin sjálf læra að bíða, að vona og að þrauka. Stuðningur verður ekki lengur sjálfsagður réttur, heldur eitthvað sem þarf stöðugt að sanna með sífellt fleiri mötum og skýrslum. Á meðan hverfa drengirnir inn í sig. Þeir læra að þeir mega ekki vera þeir sjálfir því kerfið ákveður, með eða án gagna, hverjir þeir eru og hvort þeir teljist þess verðugir að fá hjálp. Þegar kerfi neyðir fólk í stöðu þar sem það þarf stöðugt að sanna að það eigi rétt á stuðningi þá er borðið orðið einkaréttur, bara fyrir þá „réttu“. Þá er jaðarsetning ekki lengur slys, heldur afleiðing hönnunar. Og þá kemur stóra spurningin: Hver situr við borðið þegar ákvarðanir eru teknar? Eru það talsmenn drengjanna, foreldrarnir, kennararnir á gólfinu eða eru það töflureiknar, skipurit og fjárhagsleg forgangsröðun sem aldrei þurfa að fá útskýringar á því hvernig það er að vera drengur sem fær stöðugt þau skilaboð að hann sé vandamálið?

Ég vil ekki meira tal um „erfiða drengi“, ég vil spurningar um erfið kerfi. Ég vil ekki fleiri greiningar sem lausn í sjálfu sér, ég vil kerfi sem tekur ábyrgð áður en drengurinn ber skömmina. Ég vil borð þar sem þeir sem mest þurfa á því að halda fái sæti, áður en þeir verða „á matseðlinum“. Ég vil samfélag sem spyr ekki bara hvernig við getum lagað drengina okkar, heldur hvernig við getum lagað rýmið sem þeir eru í. Hvernig við getum víkkað skilgreininguna á því hvað telst „eðlilegt“. Hvernig við getum skapað skóla og þjónustu sem þolir fjölbreytileika í stað þess að reyna stöðugt að slétta hann út.

Því það sem gerist þegar fólk fær ekki að vera við borðið er að það missir ekki bara rödd heldur trúna á því að þeirra rödd skipti máli. Það missir trú á því að það eigi rétt á því að vera hluti af heildinni. Og samfélag sem kennir drengjunum sínum þetta er ekki bara að jaðarsetja þá, heldur að kenna þeim að þeir tilheyri ekki. Upplifunin af því að enginn vilji mann er dýrasta og sársaukafyllsta kennsla sem til er.

Höfundur er mannvinur og kennari.




Skoðun

Sjá meira


×