Lífið

Féll eftir tuttugu ára edrúmennsku

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Natasha Lyonne opnaði sig um erfitt fall á dögunum.
Natasha Lyonne opnaði sig um erfitt fall á dögunum. Araya Doheny/Getty Images

Leikkonan Natasha Lyonne opnaði sig upp á gátt á samfélagsmiðlum á dögunum þar sem hún segir frá því að hún hafi fallið eftir tæplega tuttugu ára edrúmennsku. Lyonne, sem fór í meðferð við heróínfíkn árið 2006, segir vonina alltaf vera til staðar.

Natasha Lyonne er fædd árið 1979 og byrjaði sex ára gömul að leika. Hún var sérstaklega vinsæl í kringum aldamótin fyrir hlutverk í költ-kvikmyndunum American Pie og But I'm a Cheerleader og átti svo rosalega endurkomu inn í senuna í hlutverki sínu sem Nicky í verðlaunaþáttunum Orange is the New Black

Þar fór hún með hlutverk fyrrum fíkils á afar sannfærandi hátt en Lyonne þurfti að gangast undir stóra hjartaaðgerð árið 2012 og ber stórt ör á bringunni eftir það. 

Á föstudagskvöld birti hún einlæga færslu á samfélagsmiðilinn X þar sem hún skrifar meðal annars: 

„Bataferlið er eitthvað sem fylgir mér alla ævi. Ef einhver þarna úti er að ströggla mundu þá að þú ert ekki ein. Ég er þakklát fyrir alla ástina. 

Ég ætla að ná tökum á þessu fyrir baby Bambo,“ segir Lyonne en Bambo vísar til kvikmyndar sem Lyonne er að leikstýra og skrifa handrit að um þessar mundir. 

 „Verið hreinskilin, leyndarmálin okkar gera okkur veikari,“ heldur hún svo áfram. 

„Ef enginn sagði þér það í dag þá elska ég þig. Sama hversu djúpt við sökkvum þá mun reynsla hvers og eins okkar alltaf geta hjálpað öðrum. Haldið alltaf áfram og ekki hætta áður en kraftaverkið gerist. Veggfóðraðu hugann þinn með ást og umhyggju.“

Ef þú eða einhver sem þú þekkir er að glíma við fíknivanda er hægt að leita ráðgjafar hjá SÁÁ samtökunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.