Skoðun

Opin­ber á­skorun til borgar­stjóra: Hvar er kaffispjallið í Grafar­vogi?

Elísabet Gísladóttir skrifar

Íbúar Grafarvogs hafa ítrekað óskað eftir opnum fundi með borgarstjóra, líkt og haldnir hafa verið í öðrum hverfum Reykjavíkur á Hverfadögum. Óskin er hvorki ný né óeðlileg. Hún hefur verið sett fram kurteislega, skriflega og með góðum fyrirvara. Samt sitjum við enn eftir án dagsetningar, án boðs og án raunverulegs samtals.

Þetta vekur upp spurningar um jafnræði, gagnsæi og vilja borgaryfirvalda til að hlusta á íbúa Grafarvogs.

Ítrekaðar beiðnir – engin niðurstaða

Frá því í nóvember hafa Íbúasamtök Grafarvogs ítrekað óskað eftir því að borgarstjóri haldi kaffispjall eða opinn íbúafund í hverfinu. Beiðnir hafa verið sendar beint á borgarstjóra og skrifstofu hennar, svarað hefur verið en án efnda.

Í svörum borgarinnar hefur m.a. komið fram að „að þau verði í sambandi fljótlega“ og að dagskrá sé „þétt“. Nú eru liðnir margir mánuðir, jól og áramót liðin, og enn hefur ekkert samtal átt sér stað.

Þetta er einfaldlega ekki ásættanlegt.

Grafarvogur virðist sitja eftir

Borgarstjóri hefur sjálf lagt áherslu á mikilvægi samtals við íbúa og haldið kaffispjöll og opna fundi í öðrum hverfum borgarinnar. Í fjölmiðlum hefur verið talað um að borgarstjóri vilji mæta fólki þar sem það er, hlusta og ræða málin af hreinskilni.

Grafarvogsbúar spyrja því eðlilega: Af hverju gildir þetta ekki um okkur?

Er Grafarvogur undanskilinn? Eða eru áhyggjur íbúa hverfisins einfaldlega ekki taldar nægilega mikilvægar?

Málin brenna á íbúum

Ástæða beiðnarinnar er skýr. Íbúar Grafarvogs hafa miklar áhyggjur af samgöngumálum, skipulagi, umferð, uppbyggingu í Gufunesi og áhrifum stórra innviðaverkefna á hverfið. Þetta eru ekki smámál, heldur ákvarðanir sem snerta daglegt líf, öryggi og framtíð heils hverfis.

Slík mál verða ekki leyst með almennum tölvupóstum eða stöðluðum svörum úr stjórnsýslunni. Þau krefjast opins samtals, augliti til auglitis, þar sem íbúar fá að spyrja og kjörnir fulltrúar svara.

Sjálfboðaliðar, ekki skrifstofa borgarinnar

Vert er að minna á að Íbúasamtök Grafarvogs eru skipuð sjálfboðaliðum sem sinna þessu starfi samhliða fullri vinnu annars staðar. Þetta er ekki fagleg stofnun með skrifstofu og starfsfólk, heldur fólk sem leggur tíma sinn og orku í þá einföldu trú að íbúalýðræði skipti máli.

Að láta slíkar beiðnir daga uppi, mánuðum saman, sendir skýr skilaboð, skilaboð sem enginn borgarbúi ætti að þurfa að sætta sig við.

Skýr áskorun

Við skorum hér með á Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóra Reykjavíkur, að standa við þau gildi sem hún hefur sjálf talað fyrir:

Að eiga samtal við íbúa

Að sýna jafnræði milli hverfa

Að mæta fólki þar sem það býr

Við krefjumst þess að dagsetning fyrir opinn íbúafund/kaffispjall í Grafarvogi verði ákveðin tafarlaust og kynnt opinberlega.

Grafarvogur á ekki að þurfa að berjast fyrir því að fá að tala við borgarstjóra sinn. Það á að vera sjálfsagt.

Höfundur er formaður Íbúasamtaka Grafarvogs.




Skoðun

Skoðun

Fimm rang­færslur um Byrjendalæsi

Gunnar Gíslason,Guðmundur Engilbertsson,Jenný Gunnbjörnsdóttir ,Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir,Rannveig Oddsdóttir,Rúnar Sigþórsson skrifar

Skoðun

Hvað er velsældar­hag­kerfið?

Kristín Vala Ragnarsdóttir,Ásgeir Brynjar Torfason,Brynhildur Davíðsdóttir,Dóra Guðrún Guðmundsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×