Skoðun

Getum við munað

Ögmundur Ísak Ögmundsson skrifar

Í mínu lífi hefur pólitík alltaf verið mikið rædd hvort sem það er við matarborðið, í afmælum eða á vinnustaðnum og eftir því sem maður verður eldri og meðvitaðri fer maður að móta betur sínar eigin skoðanir og taka virkari þátt í umræðunni. Það getur verið gott að setja hlutina í samhengi en frá árinu 2010 þegar ég var þrettán ára gamall hafa sömu stjórnmálaöfl verið við stjórnvölinn nær sleitulaust í borginni. Það er langur tími og maður hefði ætlað að á þeim tíma væri hægt að gera gríðarlega mikið af breytingum til hins betra í þágu borgarbúa en einhvern veginn er upplifunin þannig að ekki hafi verið gert nóg. Vissulega hefur ýmsu verið komið í verk og margt af því er gott en það virðist sem áherslan sé að miklu leyti lögð á gæluverkefni í ákveðnum póstnúmerum í staðinn fyrir mikilvægustu málefnin þ.e. grunnþjónustuna sem ætti að vera í númer eitt, tvö og þrjú. Það liggur hreinlega í orðanna hljóðan. Þú getur ekki farið að byggja ofan á fyrr en að grunnurinn er traustur. Á sandi byggði heimskur maður hús eins og segir í þekktu barnalagi.

Í hverjum mánuði greiðum við íbúar Reykjavíkurborgar háar upphæðir til borgarinnar og ættum að geta gengið að því vísu að sú grunnþjónusta sem flestir reiða sig á alla daga sé í toppstandi. Sjálfur hef ég oft, síðan ég fór að pirra mig á stóru hlutfalli ýmiskonar frádráttar á launaseðlinum, velt því fyrir mér hvert skattarnir mínir fara því ekki hef ég fengið á tilfinninguna að þeir fari í grundvallaratriðin. Því miður hef ég upplifað ítrekað að sú grunnþjónusta sem ég hef þurft að nýta mér á ýmsum tímapunktum hefur bara ekki verið nógu góð. Biðlistar á leikskólum, mygla í skólanum, gangstéttir ónýtar, ljósastaurar bilaðir, ruslið ekki hirt, götur ekki mokaðar og svo mætti lengi telja. Þetta þarf ekki að vera svona, það er hægt að laga þessi mál en núverandi öfl hafa sýnt greinilega að forgangsröðunin er greinilega ekki á þessa hluti.

Það er komin tími á breytta forgangsröðun hér í Reykjavík þar sem lögð er áhersla á að grunnþjónustuna og að hlúa betur að hverju hverfi fyrir sig. Í Reykjavík eru, ótrúlegt en satt, fjölmörg hverfi. Stór hverfi sem að hafa hreinlega mætt afgangi þegar kemur að sýna íbúum virðingu með eðlilegri dreifingu fjármagns. Í stað þess hefur íbúunum verið íþyngt með undarlegum ákvörðunum. Það þarf ekki að leita lengra en til Breiðholts þar sem íbúar vöknuðu eftirminnilega einn morguninn með Græna gímaldið í stofunni hjá sér eða í Laugardalinn þar sem loforð um uppbyggingu fyrir barna- og íþróttastarf hafa verið ítrekað svikin nú eða að líta til Grafarvogsins þar sem borgin ætlar að þétta byggð á svæðum sem engan vegin eru til þess fallin og munu eyðileggja þau örfáu grænu svæði sem gera hverfin svo góð.

Framundan eru borgarstjórnarkosningar þar sem okkur íbúum í Reykjavík gefst tækifæri til þess að kjósa breytingar og velja nýja stefnu með alvöru árangri. Í dag er bara einn raunhæfur valkostur og það er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn undir forystu Hildar Björnsdóttur!

Höfundur er fjölskyldufaðir, íbúi í Reykjavík og formaður Sjálfstæðisfélagsins í Langholtshverfi.




Skoðun

Sjá meira


×