Skoðun

Lof­orðin ein vinna ekki á verð­bólgunni

Ólafur Adolfsson skrifar

Verðbólga er meiri í dag en þegar ríkisstjórnin tók við völdum. Það er staðreynd sem ekki verður skreytt eða útskýrð með orðagjálfri spunameistara ríkisstjórnarinnar. Áhrifin eru raunveruleg og þau bitna á heimilum og fyrirtækjum landsins, hinu svokallaða venjulega fólki sem valkyrjur ríkisstjórnarinnar lofuðu að verja frá skattahækkunum. Loforð sem voru svikin og hér stöndum við í dag með 5,2 prósent verðbólgu.

Ef þetta væri ekki svona grafalvarlegt mál fyrir íslenska þjóð myndi maður leyfa sér að brosa út í annað eftir síðasta spunaútspil Samfylkingarinnar. Hún fyllti þá internetið af samfélagsmiðlaefni og greinum um að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefði staðið að fimm vaxtalækkunum til að slá ryki í augu fólks. Þetta sáu allir í gegnum enda var vaxtalækkunarferlið hafið áður en þessi ríkisstjórn tók við völdum og nú er verðbólgan hærri en þegar valdaflokkarnir tóku við.

Fjármála- og efnahagsráðherra átti erfiðan dag í gær að útskýra fyrir þingheimi og fjölmiðlum af hverju staðan er eins og hún er. Að mestu gerði hann það sama og vanalega, að gagnrýna spurningar og framsetningu fjölmiðla því það þóknast honum ekki og auðvitað að gera lítið úr réttmætri gagnrýni stjórnarandstöðunnar. Sömu stjórnarandstöðu og eyddi heilum mánuði fyrir áramót að vara hann við þessum skattahækkunum. Stundum er betra að hlusta.

Gleymum því ekki að enginn átti að sleppa undan skattasleggju Kristrúnar Frostadóttur og Daða Más í desember. Ekki einu sinni björgunarsveitirnar sem báðu um lítinn skattaívilnunarbrauðmola til að gera staðið straum af nýbyggingum sínum og starfsemi. Síðast þegar ég vissi var venjulegt fólk í björgunarsveitunum.

Þangað til ríkisstjórnin viðurkennir stöðuna og skiptir um stefnu mun ekkert breytast og áfram mun kostnaðurinn sitja eftir hjá heimilum og fyrirtækjum landsins.

Höfundur er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður Norðvesturkjördæmis.




Skoðun

Sjá meira


×