Skoðun

Suður­lands­braut á skilið um­hverfis­mat

Þórir Garðarsson skrifar

Deiliskipulag Borgarlínu um Suðurlandsbraut felur í sér eina stærstu samgönguframkvæmd í Reykjavík á síðari árum. Um er að ræða róttækar breytingar á fjölförnustu stofnbraut borgarinnar, með áhrifum á umferð, umhverfi, aðgengi, bílastæði, atvinnustarfsemi og daglegt líf fjölda fólks.

Þrátt fyrir þetta liggur ekki fyrir sjálfstætt mat á umhverfisáhrifum deiliskipulags Borgarlínu um Suðurlandsbraut. Vissulega hefur verið unnið umhverfismat fyrir fyrstu lotu Borgarlínu í heild, og það hefur verið staðfest af Skipulagsstofnun. En það mat er almennt og yfirgripsmikið, ekki sértækt fyrir Suðurlandsbraut sem einstakt og viðkvæmt áhrifasvæði.

Umhverfismat á korti nægir engan veginn

Það er grundvallarmunur á því að meta heildarhugmynd á korti og því að meta raunveruleg áhrif framkvæmda á tiltekið svæði þar sem tugir fyrirtækja reiða sig á aðgengi, bílastæði og umferðarflæði til að halda starfsemi gangandi.

Það sem sérstaklega vantar er ítarlegt mat á áhrifum á framkvæmdatíma. Framkvæmdir við Borgarlínu munu standa yfir árum saman. Á þeim tíma munu akreinar lokast, umferð dragast verulega saman, bílastæðum fækka og aðgengi að fyrirtækjum skerðast. Slíkt hefur bein áhrif á tekjur, rekstur og verðmæti fasteigna á áhrifasvæðinu.

Draga þarf fram heildaráhrifin

Í þeim gögnum sem lögð hafa verið fram er ekki að finna fullnægjandi greiningu á þessum áhrifum, né skýra áætlun um mótvægisaðgerðir eða sanngjarna skiptingu byrða. Það er ekki smávægilegt atriði, þetta er raunverulegur samfélagskostnaður sem lendir ekki aðeins á fasteignaeigendum og atvinnurekendum við Suðurlandsbraut, heldur öllum sem um svæðið fara.

Umhverfismat er ekki formsatriði og ekki hindrun. Það er tæki til að upplýsa ákvarðanir, bera saman valkosti og draga úr skaða áður en óafturkræfar ákvarðanir eru teknar. Að reyna að komast undan því í svona stóru máli er ekki fagleg ákvörðun, heldur pólitísk.

Rík ábyrgð Skipulagsstofnunar

Ef niðurstaðan er sú að deiliskipulagið þurfi ekki að fara í umhverfismat, þá á sú ákvörðun að liggja fyrir formlega og með rökstuðningi. Það hefur ekki verið gert með skýrum hætti. Skipulagsstofnun er ekki stætt á að líta undan.

Niðurstaðan er einföld: Deiliskipulag Borgarlínu um Suðurlandsbraut á að fara í sjálfstætt og ítarlegt umhverfismat. Ekki til að tefja verkefnið, heldur til að draga fram með óyggjandi hætti hvaða afleiðingar þessar tröllauknu framkvæmdir munu hafa á umhverfið í heild sinni.

Höfundur er stjórnarmaður í Félagi Sjálfstæðismanna í Grafarvogi.




Skoðun

Sjá meira


×