Í dag er ár liðið frá því Alþingi samþykkti með þverpólitískri samstöðu þingsályktun um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu til ársins 2028. Í þingsályktuninni segir að innrásarstríð Rússlands í Úkraínu sé alvarlegasta öryggisógn sem steðjað hefur að Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar og skýr atlaga að alþjóðakerfinu sem byggist á virðingu fyrir alþjóðalögum, friðhelgi landamæra og landhelgi ríkja. Með stuðningi við öryggi og sjálfstæði Úkraínu standi stjórnvöld vörð um beina öryggishagsmuni Íslands, alþjóðakerfið og alþjóðalög sem fullveldi Íslands byggist á.