

Ritstjóri
Hörður Ægisson
Hörður er ritstjóri viðskiptamiðilsins Innherja.
Nýjustu greinar eftir höfund

Annað en 50 punkta lækkun myndi vekja áhyggjur af óskýrleika nefndarinnar
Mikill meirihluti markaðsaðila og hagfræðinga telur einboðið að Seðlabankinn lækki vextina á nýjan leik um fimmtíu punkta í vikunni enda myndi önnur ákvörðun „skjóta skökku við“ með hitastigið á raunstýrivöxtunum á nákvæmlega sama stað nú og þegar peningastefnunefndin kom síðast saman í nóvember. Á meðan sumir þátttakendur í könnun Innherja telja hægt að fara rök fyrir stærra skrefi, núna þegar verðbólgan er á undanhaldi og hátt raunvaxtastig mun halda áfram að bíta fast, þá benda aðrir á að það sé enn viðnámsþróttur víða í hagkerfinu og fátt sem „beinlínis hrópi“ á mikla losun aðhalds.

Verðbólgumælingin var ekki „jafn uppörvandi“ og lækkunin gaf til kynna
Ef ekki hefði komið til lækkunar húsnæðisliðarins og flugfargjalda umfram spár greinenda þá hefði mælda tólf mánaða verðbólgan hækkað í fimm prósent í janúar, að sögn aðalhagfræðings Kviku banka, sem óttast „vaxandi tregðu“ í þeirri verðbólgu sem eftir stendur. Þótt nýjasta verðbólgumælingin hafi ekki verið „jafn uppörvandi“ og hjöðnunin gaf til kynna þá ætti hún samt að „innsigla“ aðra fimmtíu punkta vaxtalækkun í næstu viku, meðal annars vegna þess að verðbólguvæntingar eru á hraðri niðurleið.

Hækkandi verðtryggingarjöfnuður setur þrýsting á vaxtamun Landsbankans
Áframhaldandi eftirspurn heimila og fyrirtækja í verðtryggð lán, ásamt uppgreiðslu á sértryggðum skuldabréfaflokki, þýddi að verðtryggingarmisvægi Landsbankans rauk upp um ríflega sjötíu milljarða á síðasta fjórðungi ársins 2024. Sögulega hár verðtryggingarjöfnuður samhliða lækkun verðbólgu hefur sett þrýsting á vaxtamun bankans, sem lækkaði skarpt undir lok ársins, og hreinar vaxtatekjur drógust þá saman um ellefu prósent.

Skörp hjöðnun verðbólgu greiðir leiðina fyrir aðra stóra vaxtalækkun
Með lækkun verðbólgunnar í janúar, sem var nokkuð á skjön við meðalspá sex greinenda, eru núna yfirgnæfandi líkur á því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni lækka meginvexti um fimmtíu punkta í annað sinn í röð þegar ákvörðunin verður kunngjörð í næstu viku. Verðbólguálagið lækkaði skarpt á markaði í dag, einkum á styttri endanum, og þá er hátt raunvaxtastig farið að hægja mjög á hækkunum á húsnæðismarkaði.

Alvogen fær framlengingu á 30 milljarða láni til að klára stóra endurfjármögnun
Alvogen í Bandaríkjunum hefur fengið framlengingu á um 240 milljóna Bandaríkjadala lánalínu, sem var á gjalddaga í gær, til skamms tíma í því skyni að gefa samheitalyfjafyrirtækinu frekara ráðrúm til að ljúka við lausa enda í tengslum við stóra endurfjármögnun á skuldum félagsins. Matsfyrirtækið S&P, sem lækkaði lánshæfismat sitt á Alvogen fyrr í mánuðinum, telur að eftir rekstrarbata og minnkandi skuldsetningu á síðustu tveimur árum þá sé núna útlit fyrir að tekjurnar muni skreppa lítillega saman og framlegðin minnki.

Íbúðaverð gefur eftir samtímis háum raunvöxtum og stífum lánaskilyrðum
Fasteignamarkaðurinn er heilt yfir nokkuð kaldur um þessar mundir, sem birtist meðal annars í fækkun kaupsamninga og íbúðaverð staðið nánast í stað síðustu mánuði, og útlit er fyrir að raunverð geti gefið eftir á fyrri hluta ársins samtímis háum raunvöxtum og þröngum lánþegaskilyrðum, að mati hagfræðinga Arion. Á sama tíma og mjög hefur dregið úr verðhækkunum á fasteignamarkaði hefur framboð á íbúðum til sölu aukist talsvert, drifið áfram af fjölgun nýbygginga, og ekki verið meira um langt skeið.

Fjármagn streymdi í hlutabréfasjóði eftir viðsnúning á mörkuðum í lok ársins
Eftir nánast samfellt útflæði frá innrás Rússa í Úkraínu eru fjárfestar farnir að beina fjármagni sínu á nýjan leik í hlutabréfasjóði og eftir viðsnúning á mörkuðum undanfarna mánuði reyndist vera hreint innflæði í slíka sjóði á öllu árinu í fyrra í fyrsta sinn frá 2021. Með auknu innflæði og verðhækkunum í Kauphöllinni hefur umfang hlutabréfasjóða ekki verið meira í um þrjátíu mánuði.

Grænar fjárfestingar eins stærsta lífeyrissjóðsins undir tveimur milljörðum í fyrra
Stærstu lífeyrissjóðum landsins, sem skrifuðu allir undir viljayfirlýsingu gagnvart alþjóðlegum samtökum seint á árinu 2021 um að auka verulega við umhverfissjálfbærar fjárfestingar sínar út þennan áratug, hefur gengið heldur hægt að bæta við nýfjárfestingar sjóðanna í slíkum verkefnum. Lífeyrissjóðurinn Birta, sem ætlar að þrefalda vægi grænna fjárfestinga í eignasafninu fyrir árslok 2030, fjárfesti fyrir minna en tvo milljarða í fyrra í verðbréfum sem uppfylla skilyrði samkomulagsins.

Tilnefningarnefndir ættu að eiga í opnara samtali við stærstu hluthafa félaga
Lífeyrissjóðurinn Gildi, stór fjárfestir í mörgum félögum í Kauphöllinni, kallar eftir því að tilnefningarnarnefndir eigi í „opnara samtali“ við hluthafa sína, einkum þá stærstu þannig að þeir öðlist betri innsýn í vinnu nefndanna þegar verið er að leggja til samsetningu stjórnar. Þá segist Gildi ætla að beita sér fyrir því að skráð félög horfi til fjölbreyttari flóru en aðeins kauprétta þegar verið er að koma á langtímahvatakerfum fyrir stjórnendur skráðra félaga.

Tekjurnar af Stelara féllu um þriðjung með innkomu líftæknilyfja í Evrópu
Framleiðandi frumlyfsins Stelara, eitt mesta selda lyf í heimi, sá sölutekjur sínar skreppa saman um tugi prósenta utan Bandaríkjanna í lok ársins 2024 þegar keppinautar á borð við Alvotech komu inn á markaðinn í Evrópu með líftæknilyfjahliðstæður. Eftir mestu er hins vegar að slægjast á Bandaríkjamarkaði sem opnaðist í byrjun ársins fyrir hliðstæður við Stelara en hversu stóran bita þeim tekst að fá af kökunni mun meðal annars ráðast af verðstefnu Johnson & Johnson þegar nýir leikendur mæta á sviðið.