
Íþróttir

Portsmouth fær liðsstyrk
Úrvalsdeildarlið Portsmouth hefur bætt við sig tveimur leikmönnum á lánssamningi út leiktíðina, en þetta eru Serbinn Ognijen Koroman frá Terek Groznyi í Rússlandi og Wayne Routledge frá Tottenham, en sá síðarnefndi er fjórði leikmaðurinn sem Portsmouth fær frá Lundúnaliðinu á stuttum tíma.

Dublin til Glasgow
Glasgow Celtic hefur fest kaup á gamla refnum Dion Dublin frá Leicester City og hefur gengið frá samningi við hinn 36 ára gamla leikmann út leiktíðina. Dublin er fjölhæfur leikmaður og lék áður undir stjórn Gordon Strachan hjá Coventry.

Rodman segist geta spilað aftur í NBA
Skrautfuglinn Dennis Rodman segist eiga nóg inni í körfuboltanum eftir að hann gerði ágætt mót með liði Brighton Bears í enska körfuboltanum um helgina. Rodman skoraði fjögur stig og hirti sjö fráköst í sigri liðsins á Guildford Heat 91-88 um helgina.

Zebina fer ekki frá Juventus
Varnarmaðurinn Jonathan Zebina mun ekki fara frá ítölsku meisturunum Juventus til Tottenham í janúarglugganum eins og enska liðið hafði vonast til. Kom á daginn að Fabio Capello vildi ekki að leikmaðurinn færi frá liðinu núna, en þó er ekki loku fyrir það skotið að Tottenham kaupi Frakkann í sumar.

Nú eru jólin
Framherjinn Robbie Fowler var kynntur til sögunnar sem nýjasti liðsmaður Liverpool á blaðamannafundi í dag, þar sem hann sagði að framvegis yrði hver dagur eins og jóladagur hjá sér eftir að hann fékk að snúa aftur á gamlar slóðir.

Ballack fær engan draumasamning
Forráðamenn Bayern Munchen láta nú í það skína að litlir peningar verði handbærir til að bjóða Michael Ballack risasamning, en núverandi samningur hans rennur út í sumar. Ballack hefur fram að þessu ekki viljað ræða nýjan samning og hefur verið orðaður við lið á Englandi og á Spáni.

Gary Neville hafnar ákæru knattspyrnusambandsins
Gary Neville hefur hafnað ákæru enska knattspyrnusambandsins í kjölfar fagnaðarláta hans eftir að Manchester United skoraði sigurmark sitt gegn Liverpool á dögunum og hefur farið fram á fund með sambandinu fljótlega. Neville þótti storka stuðningsmönnum Liverpool með því að hlaupa í átt til þeirra og benda á merki United á treyju sinni.

Campo verður frá í tíu vikur
Læknar úrvalsdeildarliðs Bolton hafa nú staðfest að miðjumaðurinn Ivan Campo verði frá keppni í að minnsta kosti tíu vikur vegna fótbrotsins sem hann hlaut í leiknum gegn Arsenal á dögunum. "Ég held að þetta sé verra brot en það sem hann hlaut síðast og á varla von á að sjá hann aftur fyrr en þá í fyrsta lagi undir lok tímabilsins," sagði Sam Allardyce, stjóri Bolton.

Birmingham fær Latka að láni
Úrvalsdeildarlið Birmingham hefur fengið tékkneska u-21 árs landsliðsmanninn Martin Latka að láni út leiktíðina, en hann kemur frá Slavia Prague og er hávaxinn og sterkur varnarmaður. "Menn mæla sterklega með þessum strák og hann er ungur, sem er alltaf betra," sagði Steve Bruce, stjóri Birmingham.

Federer ætlar að vinna alla stóru titlana
Tenniskappinn Roger Federer, sem um helgina vann opna ástralska meistaramótið í annað sinn á ferlinum, segist ætla að reyna allt sem hann getur til að vinna opna franska meistaramótið og komast þar með í hóp fárra spilara sem hafa verið handhafar allra stóru titlana í einu.

Fjórði sigur Woods á Buick-mótinu
Tiger Woods hristi af sér slenið í byrjun og vann sinn fjórða sigur á ferlinum á Buick Invitational mótinu á PGA mótaröðinni í golfi sem lauk í gærkvöldi. Woods vann nauman sigur á annari holu í bráðabana eftir spennandi einvígi við Jose Maria Olazabal, eftir að þeir höfðu lokið keppni á 10 undir pari eins og nýliðinn Nathan Green.

70% líkur á að Wembley verði tilbúinn
Áströlsku verktakarnir sem standa að byggingu nýja Wembley-vallarins í London, hafa nú varað við því að verkinu gæti seinkað um nokkurn tíma og segja að útlit sé fyrir að séu 70% líkur á að hægt verði að halda úrslitaleikinn í enska bikarnum þar þann 13. maí eins og til stóð.

Liverpool og Manchester United mætast á Anfield
Nú rétt áðan var dregið í fimmtu umferð ensku bikarkeppninnar og þar ber hæst að Liverpool og Manchester United mætast á Anfield. Leikirnir fara fram helgina 18. febrúar.

Ásgeir Örn í landsliðshópinn
Ásgeir Örn Hallgrímsson, leikmaður Lemgo í Þýskalandi, hefur verið kallaður inn í íslanska landsliðshópinn í stað Vilhjálms Halldórssonar og er væntanlegur á æfingu liðsins í kvöld.

Ellefu sigrar í röð hjá Detroit
Skorunarmaskínan Kobe Bryant mátti sín lítils gegn efsta liði deildarinnar Detroit Pistons í nótt þegar lið hans LA Lakers lá fyrir Pistons 102-93 á útivelli. Bryant skoraði 39 stig í leiknum en mátti sín lítils gegn öflugri liðsheild Detroit, þar sem fimm leikmenn skoruðu 10 stig eða meira þó liðið væri langt frá sínu besta.
Naumur sigur Keflvíkinga á KR
Keflvíkingar lögðu KR 95-92 í æsispennandi leik í vesturbænum í kvöld, þar sem úrslitin réðust á lokasekúndum leiksins. Njarðvíkingar lögðu Þór 82-74, Fjölnir lagði Hamar 113-103, Grindavík sigraði ÍR 113-98 og Skallagrímur lagði Hauka í Borgarnesi 112-94. Leik Hattar og Snæfells var frestað þangað til á morgun.
Danir efstir í riðlinum
Danir tryggðu sér í kvöld efsta sætið í C-riðlinum á EM í Sviss þegar þeir lögðu Serba og Svartfellinga með 33 mörkum gegn 29. Danir hirtu með því efsta sæti riðilsins og fara áfram í milliriðil með okkur Íslendingum með þrjú stig í farteskinu líkt og íslenska liðið. Serbarnir fara einnig áfram, en án stiga.

Við vildum vinna þennan leik
Viggó Sigurðsson var nokkuð vonsvikinn eftir tapið gegn Ungverjum í lokaleik liðsins í C-riðli í dag og sagðist hafa vonast eftir að klára riðilinn með stæl, þó úrslit leiksins í dag skipti engu máli upp á framhaldið.

Auðveldur sigur Barcelona
Barcelona heldur áfram sigurgöngu sinni í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og í dag vann liðið öruggan útisigur á Mallorca 3-0. Argentínumaðurinn Lionel Messi skoraði tvö mörk fyrir Barcelona og Ludovic Giuly skoraði eitt, en Börsungar léku manni fleiri síðasta stundarfjórðinginn eftir að Tuzzio var vikið af velli í liði Mallorca.

Kamerún áfram
Kamerúnar tryggðu sér í dag áframhaldandi þáttöku í Afríkukeppninni þegar liðið lagði Kongó 2-0 með mörkum frá Samuel Eto´o og Geremi Nijtap. Kongómenn komast þrátt fyrir tapið áfram á markamun, en þeir voru með hagstæðari markatölu í B-riðli en Angólar sem sigruðu Tógó 3-2 í dag.

Línur að skýrast fyrir milliriðilinn
Íslenska landsliðið í handknattleik mun leika með Serbum, Dönum, Norðmönnum, Rússum og Króötum í milliriðlinum á EM í Sviss, en keppni í riðlinum hefst á þriðjudag.

Liverpool áfram
Liverpool er komið áfram í fimmtu umferð enska bikarsins eftir 2-1 sigur á Portsmouth á útivelli í dag. John Arne Riise og Steven Gerrard skoruðu mörk Liverpool í fyrri hálfleik, en Sean Davis minnkaði muninn fyrir heimamenn í þeim síðari.

Juventus heldur sínu striki
Juventus heldur sínu striki á toppi ítölsku A-deildarinnar eftir 3-1 sigur á Ascoli á útivelli í dag. Franski sóknarmaðurinn David Trezeguet skoraði þrennu í leiknum. AC Milan náði aðeins jafntefli gegn Sampdoria í gærkvöldi, en grannar þeirra í Inter geta minnkað forskot Juve með sigri á Lecce í kvöld.

Liverpool yfir í hálfleik
Liverpool hefur yfir 2-0 í hálfleik gegn Portsmouth á útivelli í enska bikarnum. Steven Gerrard skoraði fyrra mark liðsins úr vítaspyrnu á 36. mínútu, en Norðmaðurinn John Arne Riise bætti við öðru marki aðeins fimm mínútum síðar.

Stórleikur í vesturbænum
Heil umferð er á dagskrá í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Stórleikur kvöldsins er án efa viðureign KR-inga og Keflvíkinga í DHL-höllinni. Þá tekur Skallagrímur á móti Haukum,, Fjölnir fær Hamar/Selfoss í heimsókn, Grindavík tekur á móti ÍR og Njarðvík tekur á móti Þór. Allir leikirnir hefjast klukkan 19:15. Leik Hattar og Snæfells hefur verið frestað vegna ófærðar.

Auðveldur sigur Manchester United
Manchester United er komið í fimmtu umferð ensku bikarkeppninnar eftir átakalítinn sigur á 1. deildarliði Wolves á útivelli í dag, 3-0. Kieran Richardson skoraði tvö marka United í leiknum og Frakkinn Louis Saha eitt.

Ísland tapaði fyrir Ungverjum
Íslenska landsliðið í handbolta tapaði fyrir Ungverjum 35-31 í lokaleik sínum í C-riðli EM í Sviss í dag, eftir að staðan hafði verið 14-12 fyrir Ungverja í hálfleik. Tapið kemur þó ekki að sök, því íslenska liðið tekur með sér þrjú stig í milliriðla í keppninni.
Ungverjar hafa yfir í hálfleik
Íslenska landsliðið er undir 16-14 gegn Ungverjum í hálfleik í lokaleik liðanna í C-riðli EM í Sviss. Viggó Sigurðsson teflir fram sínu sterkasta liði í leiknum, en leikur íslenska liðsins hefur ekki verið mjög sannfærandi framan af. Snorri Steinn Guðjónsson hefur skorað fjögur mörk fyrir Ísland.

United yfir gegn Wolves
Manchester United hefur yfir 2-0 gegn Wolves í enska bikarnum, en leikurinn er sýndur í beinni útsendingu á Sýn. Kieran Richardson og Louis Saha skoruðu mörk United á 5. og 45. mínútu og því hafa gestirnir tveggja marka forystu þegar flautað hefur verið til leikhlés.

Ólafur Stefánsson hvílir
Ólafur Stefánsson fær að hvíla sig í leiknum við Ungverja sem er að hefjast núna klukkan 17, en markvörðurinn Roland Eradze kemur inn í mark íslenska liðsins í fyrsta sinn á mótinu. Eradze hefur átt við meiðsli að stríða á öxl, en hefur náð sér nógu mikið til að spila í dag.