Innlent

Vefur til styrktar atvinnilífinu

Bæjaryfirvöld á Akureyri hafa opnað sérstakan vef sem ætlaður er til þess að laða fyrirtæki norður. Á vefnum, sem nefnist Akureyrarpúlsinn, er samanburður á rekstrarumhverfi fyrirtækja á Akureyri og á höfuðborgarsvæðinu. Í fréttatilkynningu frá Akureyrarbæ segir að vefurinn sé til þess fallinn að sýna stjórnendum fyrirtækja fram á það, svart á hvítu, hverjir séu helstu kostirnir við að reka fyrirtæki í bænum. Á vefnum kemur meðal annars fram að ýmiss rekstrarkostnaður fyrirtækja sé um 40 prósentum lægri á Akureyri en á höfuðborgarsvæðinu. Bæjaryfirvöld vona að vefurinn geti stuðlað að því að styrkja atvinnulífið á Akureyri enn frekar en nú er. Akureyrarpúlsinn var tekinn í notkun í gær um leið og ný og breytt heimasíða bæjarins var kynnt, en Kristján Þór Júlíusson opnaði síðuna í Amtsbókasafninu við hátíðlega athöfn. Slóðin inn á vefinn er akureyri.is.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×